Vefþjóðviljinn 212. tbl. 18. árg.
Núverandi ríkisstjórn hefur farið sér mjög hægt í skattalækkunum og virðist stundum eins og ráðherrunum þyki sem samanburðurinn við ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstrigrænna verði alltaf svo góður að lítið þurfi að leggja á sig. Auðvitað er það samt ekki þannig, en offors vinstristjórnarinnar í skattheimtu gerir umfangsmiklar skattalækkanir nú mjög brýnar. Það sem hingað til hefur verið gert skiptir nær engu máli í samanburði við það sem þarf að gera.
Tekjuskattur var lækkaður ofurlítið og tryggingargjaldið einnig, en hvort tveggja eru ekki einu sinni hænuskref. Strax í haust þarf að stíga mun stærri skref með myndarlegri lækkun tekjuskatts og einnig lækkun hámarksútsvars sveitarfélaga, svo tvö dæmi séu tekin.
Það eykur mönnum ekki bjartsýni að forsætisráðherra sagði nýlega að svo mikill gangur væri nú í efnahagslífinu að rétt væri að „hægja á skattalækkunum“, til að slá á þenslu.
Þetta er misskilningur, sem ráðherrann sér vonandi sjálfur fljótlega.
Jafnvel þótt menn samþykki, rökræðunnar vegna, að ríkið þurfi að slá á þenslu í þjóðfélaginu, þá þarf ekki að „hægja á“ hinum ótrúlega hægu skattalækkunum þess vegna.
Það slær ekkert á „þensluna“ að skattleggja venjulegt fólk, ef ríkið eyðir skattfénu frá því sjálft.
Það er ekki þannig að peningur „skapi þenslu“ þegar Bjarni rafvirki notar hann til að kaupa í matinn, en skapi ekki þenslu þegar Bjarni fjármálaráðherra tekur sama pening af rafvirkjanum og notar hann til að borga rekstur Jafnréttisstofu.
Ef ríkið vill slá á þenslu þá á það að draga úr eigin umsvifum, ekki úr því sem venjulegt fólk fær að gera við launin sín.
Ríkið á að lækka skatta verulega og svo á það að skera hraustlega niður þá starfsemi sem þanist hefur út á undanförnum árum. Hvað starfa margir hjá Jafnréttisstofu?