Vefþjóðviljinn 211. tbl. 18. árg.
Hér er lítið sýnidæmi um hvers vegna náttúrupassi ríkisins er fráleit hugmynd. Svo er sagt frá á Vísi:
Landeigendur við Hrunalaug í Hrunamannahreppi segjast vera ráðalausir vegna ferðamanna sem flykkjast nú þangað í stórum stíl. Umgengnin er oft á tíðum slæm og landið farið að láta á sjá.
Eiríkur Steindórsson á landið sem Hrunalaug tilheyrir en hann segir ferðamannastrauminn hafa aukist jafnt og þétt síðan laugin rataði í ferðabók fyrir um fimm árum síðan. Nú finnst varla sá íslenski leiðarvísir þar sem ekki er á hana minnst.
Í ár varð algjör sprenging í aðsókn en um tvö hundruð ferðamenn, íslenskir og erlendir, leggja leið sína í Hrunalaug dag hvern. Það má því ætla að mörg þúsund manns fari um landið yfir sumartímann.
Hér er um að ræða áhugaverðan en lítinn stað sem þolir ekki mikinn ágang. Þarna er ekkert annað er gera en að innheimta gjald sem er nógu hátt til að dempa aðsóknina ásamt því að standa undir viðhaldi og skila eigendum tekjum.
Ef þessi staður væri hins vegar hluti af náttúrupassanum hefði það engin áhrif á aðsóknina nema ef til vill til að vekja athygli á staðnum og auka á kraðakið.