Vefþjóðviljinn 210. tbl. 18. árg.
Með kjöri Samfylkingarflokkanna í meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur var fólkið sem ber ábyrgð á yfirgengilegri sóun skattpeninga við Hofsvallagötu og Borgartún falið skipulagsvaldið í borginni í fjögur ár í viðbót.
Og þetta vald er því sem næst ótakmarkað.
Húseigendur í borginni mega sín lítils enda er borgin helsti eigandi lóðanna sem húsin standa á og engin hefð er fyrir því að samningar séu til staðar um hvað má og hvað ekki í götum og hverfum. Allt vald er í höndum skipulagsráðanna.
Það er reyndar áhugavert dæmi um trúgirni og velvilja að menn taki almennt í mál að reisa hús sín á landi sem háð er duttlungum kjörinna fulltrúa, sem einn góðan veðurdag eru kannski allir félagar í samtökum um bíllausan lífsstíl og ætla sér að losa hinn almenna mann við fjölskyldubílinn með góðu eða illu, með ríkri áherslu á hið síðarnefnda.
Nú krefjast samtök um bíllausan lífsstíl þess að fólk geti bútað íbúðir sínar niður í nokkra varpkassa og selt hvert hólf frá sér sem lið í „þéttingu byggðar“. Hjálmar Sveinsson, formaður skipulagsráðsins, er fyrstur til að taka undir að þetta sé æskilegt.
En hver er réttur mannsins sem fyrir hálfri öld keypti sér hús í 20 húsa einbýlishúsagötu þegar 19 ákveða að búta hús sín niður í þrennt? Er það alveg sjálfgefið að hann sé réttlaus gagnvart því að vera allt í einu „fluttur“ í götu með 58 séreignum? Er sjálfsagt að maður í 6 íbúða stigagangi hafi ekkert um það að segja að íbúðir í húsinu séu brytjaðar niður í óteljandi séreignir?
Því miður virðist fátt benda til að tekið verði tillit til hefða og óbeinna eignarréttinda húseigenda í Reykjavík á næstu árum. Þeirra helsta haldreipi er að finna silfurreyni í nágrenninu sem gæti fengið Hjálmarana til að velta því fyrir sér hvort umturna megi götum og hverfum í þágu þéttingar með bíllausa stílnum. Náttúran nýtur kannski vafans en ekki fólkið.