Vefþjóðviljinn 208. tbl. 18. árg.
Í gær gengu baráttumenn svonefnda „druslugöngu“ og samkvæmt fjölmiðlaumfjöllun var þetta fjórða árið í röð sem efnt er til hennar.
Fjölmiðlar hafa jafnan haft mikinn áhuga á göngunni, kynnt hana vandlega fyrirfram og rætt við forsvarsmenn hennar. Sú fjölmiðlaumfjöllun hefur verið dæmigerð fyrir íslenska fjölmiðla. Þeir hafa tekið öllu sem frá forsvarsmönnunum kemur sem sjálfsögðum hlut.
Gangan er sögð vera gengin til þess að „færa skömmina af kynferðisbrotum af þolandanum á gerandann.“, en einnig til að mótmæla því að klæðnaður fórnarlamba kynferðisbrota skipti máli, að það sé réttmætt að nauðga manneskju ef hún er klædd eins og „drusla“.
En hverjir hafa þessi viðhorf sem göngumenn segjast berjast gegn? Fréttamenn, sem ár eftir ár segja sömu fréttirnar af væntanlegri „druslugöngu“, hafa þeir velt því fyrir sér? Bera grunaðir nauðgarar þessu við, að fórnarlambið hafi verið klætt eins og drusla og því allt í lagi? Hafa verjendur notað þessar röksemdir? Hefur einhver saksóknari eða réttargæslumaður fengið þessar varnir framan í sig?
Eru ekki flestir sammála um að ábyrgðin á ofbeldisverki sé hjá ofbeldismanninum en ekki fórnarlambi hans? Hvernig er hægt að tala eins og svo sé ekki? Hvers vegna lætur fólk eins og aðrir hafi svo vondar skoðanir að fara þurfi í árlegar baráttugöngur til að uppræta þær?
Það segir líklega meira en mörg orð, að því er hikstalaust haldið fram að tilefni „druslugöngunnar“ hér á landi og í fleiri löndum, séu einhver ummæli lögreglumanns, eða lögreglustjóra, í Toronto í Kanada. Einhver ummæli í viðtali fyrir nokkrum árum. Og fréttamenn sjá ekkert merkilegt við það að hin stórhættulegu og útbreiddu viðhorf séu svo ráðandi um allan heim, að menn gangi og gangi til að mótmæla orðum lögreglumanns í Toronto í einu viðtali fyrir nokkrum árum. Enginn nefni ný eða innlend dæmi. Lögreglumaður í Toronto var með óleyfilegar skoðanir og nú er nóg komið. Ríkisútvarpið stendur á öndinni.
Þetta er auðvitað stórmerkilegt. Einhver orð lögreglumanns í Toronto. Ekki Bandaríkjaforseta heldur lögreglumanns eða lögreglustjóra í Toronto. Fréttamenn kinnka áhugasamir kolli þegar þeim er sagt þetta. En enginn þeirra virðist spyrja hvort einhver hafi talað svona á Íslandi eða hvenær.
Kannski voru ummæli lögreglumannsins í Toronto tekin úr samhengi, kannski sagði hann margt annað í viðtalinu sem myndi útskýra hin ummælin, kannski er rangt haft eftir honum, kannski er hann vitlaus, kannski var hann illa fyrir kallaður og komst klaufalega að orði, kannski hefur hann skipt um skoðun, og svo framvegis. En hvaða máli skiptir það? Hvaða máli skiptir hvað einhver maður í Toronto segir? Auðvitað engu. Annað hvort eru þessi viðhorf útbreidd á Íslandi, og þá geta menn auðvitað andmælt þeim, eða þau eru það alls ekki og þá er þetta ekkert vandamál.
Hvernig stendur á því að fréttamenn sem ræða aftur og aftur við druslugöngumenn kanna aldrei hvort það séu útbreidd viðhorf á Íslandi að fórnarlömb kynferðisbrota hafi átt brotið skilið ef þau hafa verið klædd eins og „druslur“? Ef slík viðhorf væru útbreidd, ætli þá mætti ekki byggja slíkar göngur á einhverju bitastæðara en því sem einhver maður í Toronto sagði hugsanlega í viðtali fyrir einhverjum árum?
Verslunarmannahelgin er næst. Dagana fyrir þá miklu ferðahelgi mun lögreglan senda frá sér ráðleggingar til fólks um að bjóða ekki innbrotshættunni heim. Læsa gluggum vandlega. Fá nágranna til að fylgjast með mannaferðum. Og svo framvegis. Auðvitað er ekki verið að „færa ábyrgðina frá innbrotsþjófnum til íbúðareigandans“ með því. Að sjálfsögðu eiga menn að gæta sín, þótt með því sé ekki verið að taka ábyrgðina frá þeim sem nýtir sér aðgæsluleysi annarra. Þetta skilja yfirleitt allir, nema þegar kemur að kynferðisbrotum gegn fullorðnum. Þá er stundum eins og ekki megi ráðleggja fólki að forðast hættulegar aðstæður, því með slíkum ráðleggingum sé verið að „leggja ábyrgðina á fórnarlambið“. Þannig verða sumir mjög reiðir þegar brýnt er fyrir ungu fólki á leið á útihátið að drekka ekki frá sér vit og rænu, því þeir séu til sem nýti sér slíkt ástand annarra. Að sjálfsögðu er ekki með þessu sagt að það sé í lagi að notfæra sér slíkt ástand fólks. Auðvitað eru þetta bara sjálfsagðar ráðleggingar og taka enga ábyrgð af þeim sem ráðast að sofandi fólki.
Ætli flestir foreldrar vari ekki börn sín við því að setjast upp í bíl hjá ókunnugu fólki. Auðvitað eru foreldrarnir ekki með því að samþykkja að brotið gegn sé því barni sem það gerir samt. Foreldrarnir eru ekki að „leggja ábyrgðina á barnið“, heldur einfaldlega að kenna því að varast hættur. Það er sjálfsagt að fara varlega og gæta sín og sinna. En ábyrgðin á líkamsárás og kynferðisbroti er hjá þeim sem það brot fremur, en ekki þeim sem brotið var á. Um þetta hljóta langflestir að vera sammála.