Vefþjóðviljinn 204. tbl. 18. árg.
Það er ekki oft sem íslensk yfirvöld hafa raunverulega tök á að hafa áhrif á gang alþjóðamála. Þótt héðan komi bréf og hér séu haldnir útifundir þá hefur það engin áhrif. Og það vita líklega flestir.
En á síðasta kjörtímabili varð oftar en einu sinni undantekning frá þeirri reglu að enginn þurfi að hlusta á sjónarmið Íslendinga. Mánuðum saman gerði Atlantshafsbandalagið loftárásir á Líbýu, í þeim tilgangi að koma Gaddafí frá völdum og andstæðingum hans til valda. Loftárásirnar skiluðu tilætluðum árangri, enda ofboðslegur aflsmunur Nató og liðsmanna Gaddafís.
Ísland á aðild að Atlantshafsbandalaginu og hefur ekki aðeins atkvæði heldur neitunarvald um allar samþykktir. Íslenska ríkisstjórnin, ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstrigrænna, ákvað í öll skiptin sem ákvarðanir um þetta voru teknar, að nýta ekki atkvæði Íslands til að hindra þessar loftárásir.
Íslenska ríkisstjórnin hefði getað komið í veg fyrir loftárásir Nató á Líbýu, en gerði það aldrei. Hún hefði einfaldlega getað sagt að loftárásir á Líbýu, sem ekki hefði ráðist að neinu Natólandi, samrýmdust ekki tilgangi Nató, og þar með hefði málið verið úr sögunni.
En þetta gerði ríkisstjórn Jóhönnu, Steingríms, Katrínar, Össurar og Katrínar aldrei.
Ekki höfðu fréttamenn mikinn áhuga á þessu. En hvernig ætli þeir hefðu látið ef önnur ríkisstjórn hefði ákveðið að hindra ekki þessar loftárásir Nató?