Vefþjóðviljinn 203. tbl. 18. árg.
Hvort er nú hlægilegra að lögga sitji í nefnd sem meta á umsækjendur um stöðu seðlabankastjóra ríksins eða að ríkið reki slíkan banka sem og allir láti sem hann geti verið sjálfstæður frá eiganda sínum?
Hvernig væri að ræða eitthvað sem máli skiptir um stjórn peningamála en gleyma um stund tæknikratískum vangaveltum um hvaða ríkisstarfsmaður verður næsti seðlabankastjóri og til hve langs tíma á að skipa hann?
F.A. Hayek sagði til að mynda:
Þegar við horfum um öxl, sjáum við, að flestir siðir okkar og hættir hafa orðið til við úrval eða þróun; þeim, sem reyndust betur, var haldið áfram, hinum hafnað. En þetta átti ekki við um peninga. Þar var ekki um að ræða neitt úrval, neina þróun, neina samkeppni ólíkra siða. Valdsmenn komu þegar í upphafi auga á það, hversu gagnlegir peningar gátu orðið þeim, svo að þeir tóku sér einkaleyfi á framleiðslu þeirra.
Eins og Vefþjóðviljinn hefur áður vikið að segir Hayek að við þetta hafi eðli peninga breyst úr vöru í tæki sem stjórnmálamenn beittu til að ná mis raunhæfum markmiðum en áður var til að mynda hugtakið peningamálastefna óþekkt. Við þetta varð verðgildi gjaldmiðla miklu óstöðugra en áður, án þess þó að öðrum markmiðum eins og fullri atvinnu eða hagvexti væri betur náð.
Hayek bendir á að vegna þess að stjórnmálamenn eigi ekki í neinni samkeppni um framleiðslu peninga hafi þeir aukið magn þeirra fram úr hófi og verðgildi þeirra fallið. Einokunin hafi gert það að verkum að peningar hafi ekki fengið að þróast í sjálfsprottnu skipulagi. Notendur peninga hafa ekki getað valið þá gjaldmiðla sem þeir telja traustasta.
Hayek segir síðan:
En ekki er óhugsandi, að menn geti framleitt peninga með öðru hugarfari; að fólk tæki betri peninga fram yfir verri. Samkeppni í framleiðslu peninga fæli í sér, að framleiðandi peninga missti viðskiptavini, þegar hann byði vonda peninga, og þeir tækju að skipta við aðra framleiðendur.