Föstudagur 11. júlí 2014

Vefþjóðviljinn 192. tbl. 18. árg.

Tveir óvæntir fjölmiðlar, Fréttablaðið og Eyjan, hafa sagt frá þeim tíðindum að Styrmir Gunnarsson hafi sagt að halda ætti einhverja þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópumál á kjörtímabilinu, annars muni fara fyrir stjórnarflokkunum eins og knattspyrnuliði Brasilíu. Sumum Evrópusambandssinnum þykja þetta miklar fréttir.

Þetta eru engar fréttir. Allir sem fylgjast með stjórnmálaumræðunni vita að Styrmir hefur í mörg ár verið hugfanginn af þjóðaratkvæðagreiðslum. Vefþjóðviljanum dettur ekkert mál í hug sem Styrmir myndi ekki vilja láta kjósa um.

Í hvert sinn sem minnst er á þessi mál birtist hópur af reiðum Samfylkingarmönnum sem fara með sömu þulurnar. Sjálfstæðisflokkurinn hafi lofað kosningu um hvort haldið skuli áfram aðlögunarviðræðum við Evrópusambandið. Staðreyndin er sú að Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei lofað slíku. Þvert á móti tók síðasti landsfundur fyrir það að inngöngubeiðnin í Evrópusambandið stæði áfram. Landsfundurinn tók þá skýru ákvörðun að Sjálfstæðisflokkurinn vildi að inngöngubeiðnin yrði afturkölluð, en að ekki yrði gert hlé á henni. Eftir þetta gat enginn gefið fyrirheit um annað í nafni Sjálfstæðisflokksins.

Þetta vita áköfustu Evrópusambandssinnarnir auðvitað, enda gagnrýndu þeir Sjálfstæðisflokkinn harðlega fyrir þetta í kosningabaráttunni. Fréttamenn sóttu mjög að einstökum forystumönnum til að reyna að fá þá til að boða eitthvað annað en þá stefnu sem æðsta vald flokksins hafði skýrlega ákveðið. Í einhverjum tilvikum tókst það, en auðvitað er stefnu flokka ekki breytt þannig.
En þegar ljóst er að landsfundur flokks hafi gefið út skýra stefnu, en einhverju síðar hafi nokkrir einstakir frambjóðendur talað á annan hátt í sjónvarpsþætti, þá verður auðvitað annað hvort að verða ofan á. Það eru ekki svik, ef flokkur fylgir þeirri stefnu sem æðsta vald hans hefur samþykkt og birt opinberlega. Þeir sem kynntu sér þær samþykktir hljóta að geta miðað við það á kjördag að sú stefna standi óbreytt. Þeir þurfa ekki að vakta öll viðtöl við alla frambjóðendur til að vita hvort stefnunni hafi verið breytt þegar frambjóðandinn var spurður sömu spurningarinnar í hundraðasta sinn.

Sjálfstæðisflokkurinn svíkur engan þegar hann framfylgir þeirri stefnu sem landsfundur hans markaði skýrt. Það væri miklu nær svikum ef einstakir forystumenn myndu eftir kosningar framkvæma einmitt það, sem landsfundurinn hafnaði, og gæfu þá skýringu að þeir gætu ekki fylgt landsfundi af því að þeim sjálfum hefði orðið á að segja eitthvað í sjónvarpsviðtali.

Menn ættu að snúa hlutunum við. Ef landsfundur hefði ákveðið að Sjálfstæðisflokkurinn vildi ganga í Evrópusambandið en eftir kosningar myndi flokkurinn ekki standa við það, og gefa þá skýringu að nokkrir forystumenn hefðu því miður sagt eitthvað annað í blaðaviðtali fyrir kosningar. Þá dytti Evrópusambandssinnum ekki í hug að stefnunni yrði breytt í viðtölum. Þá dytti þeim ekki í hug að forystan ætti að fylgja blaðaviðtölunum en ekki yfirlýstri flokksstefnu, samþykktri á landsfundi og birtri opinberlega.