Vefþjóðviljinn 179. tbl. 18. árg.
Á 17. júní sagði Vefþjóðviljinn nokkur orð um tilraunina til að koma Íslandi undir Evrópusambandið og að eyðileggja stjórnskipan landsins.
Staksteinar Morgunblaðsins vitnuðu í þessi skrif en því miður komst fyrri hluti þeirra ekki fyrir í steinunum.
Þar var vikið að þætti Framsóknarflokksins í þessum málum í ársbyrjun 2009:
Það er nánast einkennilegt til þess að hugsa nú þegar lýðveldið er sjötugt að fyrir aðeins fáum misserum reyndu Samfylkingin og VG með ógleymanlegri tækifærisaðstoð Framsóknarflokksins að nýta sér svæsna efnahagskreppu til að hrinda Íslandi undir Evrópusambandið.
Helstu hvatamenn að þessu dreymdi um að Íslendingar fengju hraðferð inn í sambandið enda máttu menn vita að stuðningur við aðild myndi minnka hratt um leið og landsmenn næðu áttum eftir bankahrunið.
Aðildin átti jafnvel að vera klöppuð og klár tveimur árum eftir hrunið enda átti um leið að tillögu Framsóknarflokksins að farga stjórnarskrá lýðveldisins og losna þar með við þröskuld á leiðinni til Brussel.
Það eru sjálfsagt margir búnir að gleyma því að flokksþing Framsóknarflokksins 2009 samþykkti að sótt yrði um aðild að ESB, þarna þegar kannanir sýndu stuðning við það.
Framsóknarflokkurinn vildi einnig kasta stjórnarskránni í ruslið eins og sérstæð auglýsing hans bar með sér.
Nú virðist forystumönnum Framsóknarflokksins svo hafa mistekist að slíta aðildarviðræðunum við ESB þrátt fyrir góðan þingmeirihluta fyrir einmitt því.
Og allt virðist komið á fullt hjá nýrri og óþarfri stjórnarskrárnefnd. Viðskiptablaðið segir svo frá:
Skúli Magnússon, sem er fulltrúi Framsóknarflokks í stjórnarskrárnefnd, segist sjá fyrir sér eina mestu breytingu á íslenskri stjórnarskrá frá upphafi verði ókynntar tillögur nefndarinnar að veruleika. „Nefndin hefur metið það sem svo að það sé þörf á breytingum um öll þessi atriði,“ segir Skúli. Undir þetta sjónarmið tekur Jón Kristjánsson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra. „Breytt þjóðfélag kallar á breytingar á stjórnarskrá,“ segir Jón.
Framsóknarflokkurinn ætlaði fyrir kosningarnar 2009 að sækja um aðilda að Evrópusambandinu og eyðileggja stjórnarskrána en sagðist svo hvorugt vilja fyrir kosningarnar 2013 en árið 2014 getur hann svo hvorki slitið aðildarviðræðunum við ESB né látið stjórnarskrána í friði
En við hverju er svo sem að búast við af liðinu sem kom Jóhönnu og Steingrími til valda 1. febrúar 2009?