Vefþjóðviljinn 178. tbl. 18. árg.
Ríkisútvarpið sagði í vikunni frétt af máli sem mörgum finnst eflaust ómerkilegt en gaf þó innsýn í skilningsleysi bæði núverandi borgaryfirvalda og fréttastofu Ríkisútvarpsins.
Fréttin snerist um skrifstofuaðstöðu nýkjörinna borgarfulltrúa, en borgaryfirvöld hafa nú breytt reglum um hana. Í fréttinni sagði meðal annars:
Forsætisnefnd kom saman til fundar á föstudag og ákvað þá að breyta aðstöðu borgarfulltrúa. Á síðasta kjörtímabili höfðu tveir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks sér skrifstofur en aðrir borgarfulltrúar skiptu með sér öðrum herbergjum, og voru tveir eða þrír í hverju. Nú hefur verið ákveðið að skipta aðstöðunni í Tjarnargötu upp og búa til stærri rými. Nú fá Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkur rými sem duga fyrir fimm manns hvort um sig, Framsóknarflokkur fær herbergi þar sem þrír komast fyrir og síðan verða borgarfulltrúar Bjartrar framtíðar, Vinstri-grænna og Pírata í sameiginlegri aðstöðu sem rúmar fjóra. … Fjórir borgarfulltrúar fá aðstöðu á annarri hæð Ráðhússins, samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg. Það er Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, sem æðsti embættismaður borgarinnar, og hinir oddvitar meirihlutans þau S. Björn Blöndal, Halldór Auðar Svansson og Sóley Tómasdóttir.
Þessi ákvörðun borgaryfirvalda sýnir merkilegt skilningsleysi á hlutverki borgarfulltrúa. Þótt meirihluti kjörinna fulltrúa hafi ákveðið að starfa saman, þá er formlega ekki til neinn „Meirihluti“. Það er engin heimild til að láta einstaka borgarfulltrúa fá mismunandi starfsaðstöðu eftir því í hvaða flokki þeir eru. Ef Sóley Tómasdóttir hættir að styðja Dag Eggertsson sem borgarstjóra, á hún þá að missa skrifstofu? Ef Júlíus Vífill byrjar að styðja Dag, á hann þá að fá betri skrifstofu?
Vefþjóðviljinn er enginn baráttumaður fyrir því að borgarfulltrúar hafi mikla skrifstofuaðstöðu fyrir sig. En borgarfulltrúarnir fimmtán eiga auðvitað að hafa allir sömu aðstöðu. Það er engin heimild til þess að verðlauna þá borgarfulltrúa, sem styðja borgarstjórann, með prívatskrifstofu. Ekki frekar en mætti borga þeim hærri laun en hinum.
Ef einn borgarfulltrúanna er jafnframt borgarstjóri, þá hefur hann vitanlega sérstaka skrifstofu í ráðhúsinu. En að öðru leyti verður að veita þeim öllum sambærilega skrifstofuaðstöðu.
Til að skilja þetta betur geta menn hugsað til alþingis. Ráðherrar hafa auðvitað skrifstofu í ráðuneytinu, en svo hefur hver þingmaður sína skrifstofu. Það yrði aldrei tekið í mál að stjórnarandstöðuþingmenn ættu að deila einhverju herbergi en svo hefði hver stjórnarþingmaður prívatskrifstofu í stjórnarráðshúsinu.
Formlega tilheyrir enginn borgarfulltrúi meirihluta eða minnihluta, rétt eins og allir alþingismenn eru jafngildir og enginn er formlega stjórnarþingmaður eða stjórnarandstæðingur. Hugtakið „oddvitar meirihlutaflokkanna“ er formlega ekki til, og engin heimild fyrir borgina til að veita einstökum borgarfulltrúum sérstaka starfsaðstöðu vegna þess.