Vefþjóðviljinn 153. tbl. 18. árg.
Ekki fór fram hjá áhugamönnum um stjórnmál að kosningasjónvarp Ríkisútvarpsins var ekki upp á marga fiska, þótt það hafi að vísu verið betra en á Stöð 2, þar sem ekkert kosningasjónvarp var. Þegar kemur að umræðum um stöðu mála og breytingar milli ára virðist fréttastofa Ríkisútvarpsins til dæmis merkilega óburðug og ekki geta af eigin rammleik haldið uppi skarplegri greiningu á hlutum. Þá var auðvitað furðulegt, svo ekki sé meira sagt, að bjóða upp á löng og yfirborðsleg viðtöl við grínista, sem báru auðvitað með sér að vera sóttir úr sömu áttinni, strax eftir fyrstu tölur.
Vefur Ríkisútvarpsins mun hafa legið niðri mestalla kosninganóttina, ef marka má samfelld orð fréttamanna sjálfra um það í kosningasjónvarpinu. Nýr útvarpsstjóri er auðvitað ekki ánægður með það og boðar nú stóraukna áherslu á vefinn og „nýmiðla“.
En hér er rétt að staldra alvarlega við.
Hvers vegna á ríkið að leggja „stóraukna áherslu á nýmiðla“? Er ekki nægilegt að ríkið haldi úti útvarpssendingum og sjónvarpssendingum?
Hvers vegna á að bæta við ríkisfjölmiðlun í „nýmiðlum“?
Hvað hefðu menn sagt ef ríkið hefði hafið útgáfu dagblaðs?
Ætla núverandi stjórnvöld að láta það viðgangast að ríkið hefji stórfellda fjölmiðlun í „nýmiðlum“? Enginn gerir sér vonir um að ríkið hætti útvarps- eða sjónvarpsrekstri í bráð, en er ekki lágmarkskrafa að menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins sjái til þess að Ríkisútvarpið haldi sig þó við útvarpið og sjónvarpið, en geri ekki meira en orðið er til að hasla sér fleiri velli?