Vefþjóðviljinn 148. tbl. 18. árg.
Stundum gerist það að sveitarstjórnarmenn, er hafa horn í síðu einhverrar starfsemi, reyna að flæma hana úr sveitarfélagi sínu. Byggja þeir þar á eigin gildismati og skeyta jafnvel ekkert um stjórnarskrárbundin réttindi annarra. Í þeim tilvikum eiga menn að vera á verði og fara fram á að ákvarðanir verði studdar við rök en ekki hleypidóma.
Skýrt dæmi um slíka framkomu sveitarstjórnarmanna er herferð borgarfulltrúa í Reykjavík gegn starfsemi nektardansstaða. Borgarfulltrúarnir eru á móti slíkum stöðum og þeir hika ekki við að nota vald borgarinnar gegn þeim. Rekstrarleyfi eru afturkölluð. Ný eru ekki veitt. Borgarfulltrúarnir vilja bara útiloka þessa staði frá borgarlandinu. Fyrir nokkrum árum lagði þáverandi borgarfulltrúi Samfylkingarinnar til að þessum stöðum yrði „drekkt í skriffinnsku“.
Nýjasta dæmið í þessa veru eru tillögur frambjóðenda Framsóknarflokksins í Reykjavík um að lóð undir mosku verði afturkölluð og í framhaldinu verði efnt til atkvæðagreiðslu borgarbúa um málið.
Þetta mál þarf að ræða upphrópanalaust. Þeir sem vilja gera þetta, þurfa að færa raunveruleg rök fyrir því að síður eigi að leyfa byggingu mosku en byggingar á vegum fylgismanna annarra trúarbragða, til dæmis Búddahof. Takist ekki að færa slík rök fram, verða þeir og aðrir að þola það að moskan verði reist.
En þeir sem andmæla tillögunni og segja því til stuðnings að persónulegt gildismat einstakra stjórnmálamanna eigi ekki að ráða slíkum hlutum, munu auðvitað í framhaldinu krefjast þess að borgarfulltrúar hætti að beita valdi borgarinnar gegn nektardansstöðunum. Og ef einhverjir halda að þessi mál séu ósambærileg vegna þess að trúfrelsi moskubyggjendanna sé verndað í stjórnarskránni, þá ættu þeir að muna að atvinnufrelsi nektardansaranna er líka verndað í stjórnarskránni.