Þriðjudagur 20. maí 2014

Vefþjóðviljinn 140. tbl. 18. árg.

Tækifæri til þéttingar byggðar á Ægisíðu? Hví skyldi ekki vera byggður háhýsamúrveggur við hafið þarna eins og raunin og ætlunin er víða annars staðar í Reykjavík?
Tækifæri til þéttingar byggðar á Ægisíðu? Hví skyldi ekki vera byggður háhýsamúrveggur við hafið þarna eins og raunin og ætlunin er víða annars staðar í Reykjavík?

Sporin hræða þegar „þétting byggðar“ í Reykjavík er annars vegar. Gamla Morgunblaðs-„hölllin“ við Aðalstræti gæti verið einkennismerki þéttingarstefnunnar; mjög stórt hús í samanburði við næstu hús er byggt í allt öðrum stíl og hverfið verður aldrei samt.

Skuggahverfið girðir lágreistari byggð frá hafinu og fallegri fjallasýn og er auk þess í allt öðrum stíl. Ekki sér fyrir endann á því eða öllu heldur endann á Frakkastíg því allt stefnir í að nýjasta byggingin þar byrgi einstæða sýn til hafs niður stíginn.

En borgin ætlar að halda þessari stefnu áfram eins og sést á skipulagi við Mýrargötu þar sem girða á gömlu húsin við Vesturgötu og nálægum götum frá hafinu með nýtískulegum og hærri byggingum.

Og það nýjasta, sem reyndar hófst með Hörpuferlíkinu, er að reisa múrvegg milli miðbæjarins og hafsins, flóans, fjallanna og eyjanna. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra vakti athygli á þessu í sjónvarpsþættinum Eyjunni á Stöð 2 á sunnudaginn.

Hér óttast maður að það verði alveg skorið á þessi tengsl með því að setja gríðarlega stórar gler-, steinsteypu og stálbyggingar milli gömlu Kvosarinnar og hafsins og þetta verði þá hangandi yfir gamla bænum og rýri gildi hans í stað þess að þetta svæði sé nýtt til að ná aftur tengslunum við hafið.

Hvar ætla þéttingarmenn að draga mörkin? Hvað með Ægisíðuna milli Hofsvallagötu og Starhaga? Sunnan götunnar mætti hæglega „þétta byggðina“ verulega með svona sjö hæða glerblokkum. Hva, verktakinn samþykkir að lækka múrvegginn niður í sex hæða eftir einróma mótmæli nágranna.