Vefþjóðviljinn 139. tbl. 18. árg.
Ein leið til að leggja mat á það sem kemur frá stjórnmálaflokkum eða einstökum stjórnmálamönnum, er að velta fyrir sér hvernig menn litu á, ef nákvæmlega sömu hlutir kæmu frá öðrum flokkum eða öðrum stjórnmálamönnum.
Í síðustu viku birti Fréttablaðið viðtal við Heiðu Kristínu Helgadóttur, varaþingmann og „stjórnarformann“ Bjartrar framtíðar. Í viðtalinu, sem birt var undir fyrirsögninni „Ég veit að ég er leiðtogi“, segir blaðamaðurinn meðal annars að margir hafi velt vöngum yfir því að Heiða Kristín hafi ekki, þrátt fyrir hafa „vakið athygli fyrir vasklega framgöngu“, setið í „oddvitasæti eða minnsta kosti verið í efstu sætum á listum.“ En blaðamaðurinn gefur svo þá skýringu, sem verður að ætla að sé frá Heiðu Kristínu komin, að „Heiða ákvað að taka annað sæti á lista Bjartrar framtíðar í Reykjavík norður í alþingiskosningunum í fyrra.“
Heiða Kristín segir að fyrst hafi það verið „svekkjandi og vonbrigði“ þegar í ljós kom undir morgun kosninganæturinnar að hún náði ekki kjöri á þing. En svo hefði hún horft til baka til þess sem hún „hafði ákveðið á sínum tíma og fann að það var hárrétt ákvörðun hjá mér að taka annað sætið.“
Næst talar Heiða Kristín um lista Bjartrar framtíðar í borgarstjórnarkosningunum og segir: „Ég ætlaði mér að taka sæti á lista í borginni“ en svo hefði hún, eftir mikla íhugun, fundið að sig langaði ekki til þess. En það er auðvitað allt í lagi: „Þó ég sé ekki í fyrsta sæti hef ég mjög mikil áhrif á það hvernig Björt framtíð er að þróast og hvaða áherslur flokkurinn legggur.“
Hvernig ætli þessi orð öll myndu hljóma úr munni einhvers sem starfaði í stjórnmálaflokki, þar sem almennir flokksmenn hafa raunveruleg áhrif á það hverjir sitja á framboðslistum? Hvað segðu menn við viðtölum við „stjórnarformann“ slíks flokks, sem hefði ákveðið að taka annað sætið þarna og hugleitt að taka fyrsta sætið hérna, en hefði svo ákveðið að taka ekki sæti, en hefði auðvitað „mjög mikil áhrif“ á það hvaða „áherslur flokkurinn leggur“?
Ef sami flokkur myndi á sama tíma markaðssetja sig sem nýtt afl lýðræðisins, framboð nýs tíma gegn baktjaldamakki, hvað segðu menn þá? Ætli kjósendur yrðu ekki fljótir að sjá í gegnum spunann?