Vefþjóðviljinn 138. tbl. 18. árg.
Í vikunni verður kosið til hins valdalitla Evrópuþings. Það blasir við, þegar lesið er hvað álitsgjafar og stjórnmálaáhugamenn hafa um þær kosningar að segja, að þeir gera ráð fyrir að kjósendur muni ekki kjósa af ábyrgð og þekkingu. Fulltrúar rangra viðhorfa muni fá „of mikið fylgi“.
Það er athyglisvert hversu algengt það er að álitsgjafar segi að lýðskrumsflokkar njóti nú mikils fylgis. Það er nefnilega svolítið merkilegt að sjá hverjir það eru, sem álitsgjafarnir kalla lýðskrumara og hverjir eru aldrei kallaðir lýðskrumarar. Flokkar sem eru eindregið á móti Evrópusambandinu eru lýðskrumsflokkar. Flokkar sem eru eindregnir með Evrópusambandinu eru það ekki. Þeir sem segjast berjast fyrir „réttlæti“ og „sanngirni“, eru aldrei sakaðir um lýðskrum, svo lengi sem þeir ætla að gera góðverk sín á kostnað skattgreiðenda.
Þeir sem vilja að land sitt hætti þátttöku í Evrópusambandinu, þeir eru öfgamenn og jaðarflokkar, og alls ekki „stjórntækir“. En þeir sem boða efnahagslega ógn og skelfingu ef gengið yrði úr Evrópusambandinu, þeir eru ekki öfgamenn. „Kúba norðursins“ hét þetta á Íslandi, í munni manns sem var svo stjórntækur að hann var gerður að ráðherra þrátt fyrir að hafa aldrei farið í framboð og hafa ekkert atkvæði á bak við sig. En það var auðvitað gert í nafni lýðræðis og fagmennsku, eins og margt annað síðustu árin.
En eru ekki fjölmiðar alltaf að birta einhver svakaleg ummæli frambjóðenda „lýðskrumsflokkanna“? Eru frambjóðendurnir ekki alltaf með einhverjar staðhæfingar sem standast svo ekki nánari skoðun? Jú, sjálfsagt. En hver veit hvort fréttirnar af ummælum þeirra séu til marks um að þeir séu vitlausari en aðrir frambjóðendur? Hugsanlega er hluti af skýringunni að fjölmiðlamenn hafi vaxandi áhyggjur af fylgi þeirra og leggi því meira á sig í leit að slíkum fréttum um þá en um aðra. Ætli allir frambjóðendur „hófsömu“ flokkanna kæmu vel út úr vandlegri athugun?
Hversu margir fjölmiðlar hafa fjallað um þingræður Páls Vals Björnssonar, þingmanns Bjartrar framtíðar, þegar hann í fullyri fyrst að hann hefði „ekki hugmynd“ um hvort það yrði Íslandi til hagsbóta að ganga í Evrópusambandið, en sagði í annarri ræðu, tuttugu mínútum síðar, að komnar væru „nægar sannanir fyrir því að betra sé fyrir okkur að vera í Evrópusambandinu“ og í þriðju ræðunni að innganga í Evrópusambandið væri eitt af „stærstu hagsmunamálum þjóðarinnar“ og hefði verið það „í mörg ár“? Sennilega hafa fáir fjallað um þetta. Ætli menn hefðu þagað ef Vigdís Hauksdóttir hefði talað með þessum hætti í þinginu?
En auðvitað skiptir máli að frambjóðendur margra „hófsömu“ flokkanna forðast nú orðið eins og þeir geta að tala um stjórnmál. Menn ættu bara að fylgjast með umræðum á Íslandi. Það á að gera allt fyrir alla, nema að vísu skattgreiðendur sem eiga að borga brúsann.
Þegar talsmenn ákveðinna sjónarmiða eru kallaðir lýðskrumarar en andstæðingar þeirra ekki, þá vakna auðvitað spurningar um það hvað sé lýðskrum. Er það lýðskrum að boða ávísanir úr borgarsjóði til að niðurgreiða tómstundastarf? Er það lýðskrum að boða „ókeypis“ leikskóla? Er það lýðskrum að skrifa viku eftir viku, ár eftir ár, greinar um að „þjóðin eigi auðlindina í sjónum“ og þess vegna eigi þeir sem stunda útgerð að borga ríkinu fyrir „aðgang að auðlindinni“? Er það lýðskrum að segja stöðugt við lesandann að hann eigi nú fiskinn í sjónum og verið sé að snuða hann um réttmætan „arð af auðlindinni“? Er það lýðskrum þegar þeir, sem neituðu að láta fara fram þjóðaratkvæði um hvort Ísland yrði umsóknarríki að Evrópusambandinu, krefjast þess í nafni lýðræðis að þessi ákvörðun þeirra verði ekki afturkölluð nema með þjóðaratkvæði? Frambjóðandi sem fer á fund með öryrkjum og vill hækka örorkubætur er hann lýðskrumari? Frambjóðandi sem fer á fund með bændum og vill „verja landbúnaðinn“, er hann lýðskrumari? Eða er lýðskrum eingöngu þegar einhver segir við fólk að það geti tapað á því ef erlendir verkamenn flytjast til lands þess og keppa við það um störfin?
Það er ekki vafi á því að frambjóðendur þeirra flokka sem nú njóta mikils stuðnings í könnunum í Evrópusambandslöndunum eru misjafnir menn. Ýmsir þeirra eru eflaust ekki geðfelldir. Undir niðri hjá mörgum þeirra eru einnig illa rökstuddar og vondar skoðanir, sem vonandi verður aldrei hrint í framkvæmd. En slíkum skoðunum á að mæta með rökum. Það hlýtur að vera auðvelt.