Laugardagur 17. maí 2014

Vefþjóðviljinn 137. tbl. 18. árg.

Hvers vegna er fjárhagsaðstoð í Reykjavík farin úr böndunum?
Hvers vegna er fjárhagsaðstoð í Reykjavík farin úr böndunum?

Í síðustu viku var hér vikið að þeim orðum Áslaugar Maríu Friðriksdóttur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að þeim borgarbúum sem standi undir velferðarkerfinu með þátttöku á vinnumarkaði fækki sífellt en að sama skapi fjölgi þeim sem leita ásjár kerfisins.

Áslaug María nefndi þetta uppsöfnun velferðarvandans í Reykjavík. Hún hefur jafnframt sett fram tölur um hvernig staðan í Reykjavík er í samanburði við Akureyri og Hafnarfjörð. Eins og sjá má á grafinu hér að ofan er kostnaður á hvern skattgreiðenda (hverja fjölskyldu) í Reykjavík margfaldur á við hin sveitarfélögin.

Rauði kross Ísland gaf svo í gær út skýrslu sem varpar frekara ljósi á þennan vanda. Þar kemur fram að stórir hópar ungmenna,ekki síst ungra karla, hafi í raun gefist upp á lífsbaráttunni áður en reynir á þátttöku þeirra á vinnumarkaði.

Einn skýrsluhöfunda lýsti því þannig í fréttaviðtali að þegar ungmennin næðu 18 ára aldri kæmu foreldrar þeirra jafnvel með þau til félagsþjónustunnar og segðu „jæja hérna er hann kominn“.

Það er nauðsynlegt fyrir bæði skattgreiðendur og fullfrísk ungmennin að þessari leið til glötunar verði lokað.