Vefþjóðviljinn 132. tbl. 18. árg.
Evrópumeistaramótið í gæðum fór fram um helgina. Því miður fóru Íslendingar ekki með sigur af hólmi þrátt fyrir virðingarverða tilraun, og sennilega mun sigur ekki nást fyrr en Guðrún Ögmundsdóttir tekur þátt í keppninni fyrir Íslands hönd, en eins og flestir baráttumenn fyrir mannréttindum vita breytti hún ýmsum lögum og reglum á Íslandi í frjálsræðisátt, í valdatíð sinni.
Í útsendingu Ríkissjónvarpsins frá keppninni sagði kynnir sjónvarpsins að rúmenski þátttakandinn væri ákaflega mikill baráttumaður fyrir mannréttindum. Ekki var nefnt hvaða sviði mannréttindabaráttunnar rúmenski keppandinn helgar krafta sína, en auðvitað er líklegt að hann helgi sig baráttunni fyrir eignarrétti, atvinnufrelsi og samningafrelsi almennra borgara, en á síðustu árum hefur ákaft verið sótt að þessum mikilvægu réttindum, og eðlilegt að baráttumenn fyrir mannréttindum hafi áhyggjur af því.
Líka er líklegt að mannréttindanefndir þær sem sveitarfélög hafa byrjað að skipa á sínum vettvangi á undanförnum árum, enda mannréttindi augljóst verkefni sveitarfélags, muni bráðum snúa sér af fullum krafti að baráttunni fyrir þessum mikilvægu mannréttindum, eftir hetjulega framgöngu sína á öðrum sviðum.
Sífellt er þrengt að rétti fólks til að ráðstafa eigin málum. Grafið er undan eignarrétti einstaklingsins með ýmsum ráðum. Fleiri og fleiri takmarkanir eru gerðar á því hvernig fólk má nýta eignir sínar. Allt miðar þetta í sömu áttina. Til þess að stækka ríkið og smækka einstaklinginn. Auðvitað eru þeir enn í miklum minnihluta sem viðurkenna að þeir stefni í raun til alríkis, en við hvert skref sem stigið er í þessa átt minnkar einstaklingurinn en hið opinbera stækkar. Við hverja ákvörðun sem fólki er bannað að taka sjálft um eigið líf, minnkar vald þess yfir eigin málefnum. En hið opinbera stækkar að sama skapi.
Fleiri og fleiri venjast á að hið opinbera hugsi fyrir það, ákveði hvað sé skynsamlegt, hvað sé óhætt, hvaða skoðanir séu leyfilegar, hvað séu boðleg áhugamál, hvernig menn eigi að ferðast innan borgarinnar, og svo framvegis. Ætti ég að hjóla með hjálm? Ja, hvað segja reglurnar? Þetta gerist ekki á svipstundu, en þróunin er í þessa átt.
Það er mikilvægt að baráttumenn fyrir mannréttindum taki höndum saman gegn þeirri þróun.