Helgarsprokið 4. maí 2014

Vefþjóðviljinn 124. tbl. 18. árg.

Svör Catherine Ashton utanríkismálastjóra ESB eru þvert á það sem ESB-sinnar hafa haldið að Íslendingum.
Svör Catherine Ashton utanríkismálastjóra ESB eru þvert á það sem ESB-sinnar hafa haldið að Íslendingum.

Á dögunum sagði Ríkisútvarpið stutta frétt um svar sem Catherine Ashton, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, hafði gefið við fyrirspurn þingmanns á Evrópuþinginu. Svarið var skriflegt og birt opinberlega á vegum Evrópuþingsins. Frétt Ríkisútvarpsins var stutt, birt inni í fréttatíma í hádegi sumardagsins fyrsta, náði auðvitað ekki í yfirlit fréttatímans, og ekki í sjónvarpsfréttir um kvöldið.

Catherine Ashton, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, gerir engar athugasemdir við gjaldeyrishöftin sem í gildi eru á Íslandi og segir þau ekki brot á EES-samningnum. Hún ítrekar þó nauðsyn þess að þeim verði aflétt sem fyrst. Þetta kemur fram í skriflegu svari hennar fyrir hönd framkvæmdastjórnarinnar við spurningu dansks fulltrúa á Evrópuþinginu. Ashton bendir á íslensk stjórnvöld hafi í kjölfar hrunsins sett á tímabundin gjaldeyrishöft. Öll formsatriði EES-samningsins hafi verið uppfyllt í því ferli og EFTA-dómstóllinn hafi staðfest að þessar aðgerðir væru lögmætar. Ashton telur að ekkert tilefni sé því til að endurskoða EES-samninginn þótt Ísland geti ekki sem stendur uppfyllt einn þátt fjórfrelsins svonefnda. Eftir stendur samt að höftunum verði að aflétta fyrr eða síðar.

Meira var ekki um það sagt. Engin ástæða til að setja þetta í samhengi við umræðu um Evrópumál á Íslandi eða aðra hluti.
En þetta var nú töluvert fréttnæmt. Eitt af því sem íslenskir Evrópusambandssinnar hafa ákaft haldið fram undanfarið, til stuðnings þeirri kröfu sinni að Ísland haldi áfram að vera umsóknarríki í Evrópusambandið, er það annars láti Evrópusambandið sverfa til stáls vegna gjaldeyrishaftanna. Þetta hefur verið margtuggið yfir mönnum. Höftin brjóta EES-samninginn en Evrópusambandið lætur gott heita á meðan við erum umsóknarríki, en ef við hættum að vera umsóknarríki mun Evrópusambandið segja EES-samningnum upp.

Þessa kenningu hafa íslenskir aðildarsinnar flutt landsmönnum ítrekað, sumir raunar árum saman. Henni var til dæmis flíkað árið 2010, þegar lagt var til á þingi að aðildarumsóknin yrði afturkölluð.

En þegar utanríkismálastjóri Evrópusambandsins er krafinn um skriflegt svar til Evrópuþingsins þá ber svo við að hún nefnir aðildarumsóknina ekki einu orði. Það að afturkalla hana veldur nefnilega engri hættu í þessu sambandi.

Óstytt hljómar svarið svona:

Free movement of capital is a fundamental internal market freedom and is integral part of the EEA acquis. However, restrictions of free movement of capital between EU Member States and EFTA States can be implemented on the basis of the provisions of Article 43 of the EEA Agreement.
Following the 2008 financial crisis, the Government of Iceland introduced temporary capital controls as part of the IMF stabilisation program. The legality of these restrictions has been confirmed by the EFTA Court , including the fact that Iceland has fully respected all the special procedures provided by the article 43, 44 and 45 of the EEA Agreement with regard to consultation and notification of the EFTA Standing Committee and the EEA Joint Committee. As a consequence, the Commission, as alternative chair of the EEA Joint Committee, had no objections to the introduction of capital restrictions in Iceland.
The removal of these controls remains a complex process as confirmed by the conditions-based strategy approved by the the Icelandic Government in March 2011. Currently available information does not make possible to conclude whether and by when the strategy will be successful. In the framework of the EEA Joint Committee, the European Commission is using its legal competences and invited Icelandic authorities to provide regular updates as to the progress achieved that would render possible an appropriate assessment of the continuous needs of controls. The final goal remains the gradual removal of these temporary capital controls.
Finally, as the capital restrictions in Iceland were introduced in respect of the EEA Agreement and given the ongoing progress in lifting them, there are no grounds for considering a renegotiation of the Agreement.

Ríkisútvarpið gerir auðvitað enga úttekt á fullyrðingum íslenskra stjórnmálamanna eða sérfræðinga í Evrópusambandsmálum, þegar þessi afstaða framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins liggur fyrir. En nú vita landsmenn þetta. 

Voru ekki allir að hlusta nákvæmlega í miðjum hádegisfréttatíma sumardagsins fyrsta?