Vefþjóðviljinn 120. tbl. 18. árg.
Óli Björn Kárason vekur athygli á því í dag í grein í Morgunblaðinu hversu margt er öfugsnúið í íslenskri stjórnmálaumræðu.
Samkvæmt nýlegri skoðanakönnun vill rúmlega 71% Reykvíkinga að flugvöllurinn verði áfram á sínum stað í Vatnsmýri. Um 70 þúsund manns af landinu öllu munu hafa skrifað undir áskorun til stjórnvalda um að tryggja áframhaldandi óskerta starfsemi flugvallarins þar.
Borgaryfirvöld gera ekkert með þetta. Fréttamenn gera ekkert með það.
Ekki verður þess vart að fjölmiðlar fari hamförum yfir því að borgarstjórn gangi freklega í berhögg við vilja mikils meirihluta borgarbúa og landsmanna allra. En fjölmiðlar fóru hins vegar af límingunum þegar lögð var fram tillaga um að slíta með formlegum hætti aðildarviðræðum við Evrópusambandið, sem þó höfðu verið á ís allt frá árinu 2011. Reglulega voru fluttar ítarlegar fréttir af fjölda þeirra sem skrifuðu undir kröfu um að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu og í nokkrar vikur var varla hægt að kveikja á útvarpi eða sjónvarpi öðruvísi en að hamrað væri á því að komandi laugardag yrði útifundur á Austurvelli.
Og Óli Björn heldur áfram og minnir á að „sömu menn og nú krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna komu í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2009 um hvort sækja skyldi um aðild að ESB. Samherjar þeirra og sálufélagar í borgarstjórn Reykjavíkur hunsa síðan meirihluta borgarbúa í flugvallarmálinu, en það er víst í góðu lagi samkvæmt fréttamati ríkisins og fjölmiðla.“
Í baráttunni fyrir kosningarnar 2009 hömruðu Vinstrigrænir á því að ekki yrði sótt um aðild að ESB ef þeir kæmust í ríkisstjórn. Það væri alls ekki í boði. Þessi barátta þeirra og loforð voru í samræmi við ítrekaðar flokkssamþykktir, svo frambjóðendurnir höfðu raunverulegt umboð til loforðanna og þeim átti því að mega treysta. Þetta var svo allt svikið strax eftir kosningar. Fjölmiðlar höfðu engar áhyggjur af því. En nú þegar lagt er til að inngöngubeiðnin í Evrópusambandið verði afturkölluð, sem er í samræmi við skýrar samþykktir æðstu stofnana stjórnarflokkanna, hvernig hegða svonefndir fréttamenn sér þá?
Fjölmiðlar lágu ekki á liði sínu þegar forysta Sjálfstæðisflokksins var sökuð um að svíkja kosningaloforð vegna tillögunnar. Engu skipti hvað æðsta valdastofnun Sjálfstæðisflokksins hafði samþykkt. Öll tækifæri til að koma höggi á formann Sjálfstæðisflokksins voru nýtt. Annað gildir um foringja vinstri manna. Engu er líkara en þeir njóti friðhelgi á helstu fréttastofum landsins.
Borgaryfirvöld gera ekkert með áskoranir tugþúsunda manna og vísbendingar um vilja yfirgnæfandi meirihluta borgarbúa. Fréttamönnum er alveg sama. Jón Gnarr er álitinn hrokalaus fulltrúi nýja tímans. Maður lýðræðisins en ekki skúmaskotanna.
Sjálfstæðismenn standa að tillögu sem er í fullu samræmi við yfirlýsta stefnu flokksins. Fréttamenn ganga af göflunum í von um að þingmenn flokksins missi kjarkinn.
Vinstrigrænir svíkja skýr kosningaloforð sem voru í fullu samræmi við flokkssamþykktir þeirra, hálfum mánuði eftir kosingingar. Fréttamönnum er alveg sama. Katrín Jakobsdóttir er álitin heiðarlegasti maður landsins.