Þriðjudagur 29. apríl 2014

Vefþjóðviljinn 119. tbl. 18. árg.

Ríkið smyr 7% tolli, 20% vörugjaldi og 25,5% virðisaukaskatti á gasgrill. Það kemur því ekki á óvart að þau séu dýr hér á landi.
Ríkið smyr 7% tolli, 20% vörugjaldi og 25,5% virðisaukaskatti á gasgrill. Það kemur því ekki á óvart að þau séu dýr hér á landi.

Við lauslegan samanburð á verði gasgrilla hér á landi og í Bandaríkjunum virðist sem grillin hér séu um það bil tvöfalt dýrari. Grill sem kostað 150 þúsund krónur hér kostar 75 þúsund í Bandaríkjunum.

Þessi verðmunur kemur svo sem ekki spánskt fyrir sjónir. Almennt virðist verðlag hér á helstu lífsnauðsynjum tvöfalt hærra en í Bandaríkjunum.

En þegar grilldæmið er skoðað nánar má sjá að við innflutning á grilli frá Bandaríkjunum leggst ekki aðeins á 25,5% virðisaukaskattur á endanlegt söluverð heldur einnig 7% tollur og 20% vörugjald á innflutningsverð með flutningskostnaði.

Þegar þessum þremur sköttum er staflað hver ofan á annan leiða þeir til 60% hækkunar. Það skýrir auðvitað að verulegu leyti hvers vegna grill eru miklu dýrari hér en vestan hafs.

Samanlagt hlutfall skattanna er auðvitað galið en ekki síður að það þurfti þrjá skatta af þessu tagi á eitt grill. Menn geta að vísu komist undan 7% tollinum með því að kaupa grill sem framleitt er á evrópska efnahagssvæðinu. Það eru aftur á móti ein rökin enn fyrir því að byrja á því að fella alla tolla niður að þau mismuna framleiðendum (og þar með innflytjendum) eftir því hvort þeir eru innan eða utan EES.