Vefþjóðviljinn 118. tbl. 18. árg.
Það er merkilegt hvernig menn komast upp með að halda fram staðleysum á opinberum vettvangi, án þess að nærstaddir sjái ástæðu til að gera athugasemdir.
Í Evrópumálunum hefur þetta verið sérstaklega áberandi undanfarið. Aðildarsinnar eru í hverjum umræðuþættinum og fréttatímanum á fætur öðrum, og fullyrða þar og fullyrða án þess að nokkur virðist gera athugasemdir.
Ein fullyrðingin er að nú sé svo illa komið fyrir Sjálfstæðisflokknum, að hann „leyfi ekki nema eina skoðun“ á Evrópumálum. Þetta sýni að harðlínumenn stýri flokknum. Harðlínumenn með mannfyrirlitningu.
Þetta er allt algerlega fráleitt.
Ætli þeir, sem svona tala og skrifa, trúi því í raun og veru að Sjálfstæðisflokkurinn hafi yfirleitt haft tvöfalda stefnu í utanríkismálum?
Staðreyndin er sú að Sjálfstæðisflokkurinn tekur jafnan afgerandi afstöðu til utanríkismála. Þegar afstaðan hefur legið fyrir, hafa þeir sem urðu undir í flokknum annað hvort sætt sig við hana, eða horfið á braut. En það hefur aldrei – fyrr en nú – verið gerð krafa um að flokkurinn fylgi ekki stefnu yfirgnæfandi meirihluta flokksmanna. Aldrei – fyrr en á allra síðustu misserum – hefur komið til greina að kjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins framfylgi ekki hinni skýru stefnu flokksins en láti háværan, fámennan en frekan þrýstihóp, sem sífellt er í fréttum og umræðuþáttum, hrekja sig af leið.
Sjálfstæðisflokkurinn studdi stofnun lýðveldis. Hann stóð að gerð varnarsamnings við Bandaríkin. Hann studdi veru Íslands í Nató. Sjálfstæðisflokkurinn fylgdi þessu öllu fast eftir. Það var ekki þannig að Sjálfstæðisflokkurinn væri hlynntur verunni í Nató en framfylgdi samt ekki þeirri stefnu af því að einhver í flokknum væri á móti því. Þessi einhver gerði sér ekki grillur um að hann ætti að ráða, en ekki meirihlutinn. Fréttamönnum datt það ekki í hug heldur.
Önnur fjarstæða sem byrjað er að halda fram, er að sagt sé að Evrópusinnar eigi bara að hypja sig úr Sjálfstæðisflokknum. Hver hefur sagt það? Það er ekkert að því að Evrópusinnar séu í Sjálfstæðisflokknum, ef þeir fylgja lýðræðislegum leikreglum eins og aðrir. Það er einfaldlega tekist á um stefnu flokka, Sjálfstæðisflokksins eins og annarra, og meirihlutinn hverju sinni ákveður stefnu flokksins. Þetta þarf ekki að vera neitt flókið og þetta vefst ekki fyrir fréttamönnum nema þegar ESB-sinnar í Sjálfstæðisflokknum eru annars vegar. Ef Evrópusinnar telja sig ekki geta verið í Sjálfstæðisflokknum nema þeir fái að ráða stefnu flokksins í málinu, eða fái að minnsta kosti neitunarvald um stefnu flokksins, þá er það auðvitað þeirra ákvörðun en ekki annarra.
Samkvæmt könnunum eru tæplega 10% Samfylkingarmanna á móti inngöngu Íslands í Evrópusambandið, og eru þar með í andstöðu við stefnu eigin flokks í málinu. En þessi 10% eru ekki sífellt í umræðuþáttum þar sem þau eru spurð hvort þau muni ekki kljúfa flokkinn. Enginn þingmaður Samfylkingarinnar talar máli þessa fólks. Fréttamenn spyrja forystumenn Samfylkingarinnar aldrei hvað þeir ætli að gera til að koma til móts við þessi 10%. Þáttastjórnendur reyna ekki að hafa fulltrúa þessara tíuprósenta í öllum þáttum. Enginn fréttamaður myndi gera reglulegar upphrópanir tíu prósentanna að fyrstu frétt.