Vefþjóðviljinn 112. tbl. 18. árg.
Iðnaðarráðuneytið heldur áfram vinnu sinni að því að innheimt verði eitt ríkisgjald fyrir aðgang að áhugaverðri náttúru á Íslandi. Fjármálaráðuneytið stefnir þeim sem voga sér að innheimta aðgangseyri án þátttöku ríkisins.
Svo langt ganga þessir samráðstilburðir ríkisins að ekki á aðeins að innheimta eitt ríkisgjald heldur skuli jafnvel þeir sem engan áhuga hafa á íslenskri náttúru verða skikkaðir til að fá sér ríkispassann.
Iðnaðarráðuneytið sendir reglulega út ákall til landeigenda um að „koma að borðinu“ og taka þátt í þessu samráði gegn ferðalöngum.
Undir þetta sama ráðuneyti heyrir stofnun nokkur sem nú er nefnd Samkeppniseftirlitið en hét áður Samkeppnisstofnun og Verðlagseftirlitið.
Hefur iðnaðarráðuneytið spurt þessa merku stofnun hvort það sé góðu samræmi við helstu markmið samkeppnislaga að ráðuneytið reyni að koma í veg fyrir samkeppni milli landeigenda um ferðamenn?
En það er kannski ekki líklegt að ráðuneyti sem hreykir sér af því að mismuna fyrirtækjum landsins með „ívilnanasamningum“ við sum þeirra hafi miklar áhyggjur af samkeppnissjónarmiðum.