Laugardagur 19. apríl 2014

Vefþjóðviljinn 109. tbl. 18. árg.

Frá því var skýrt í vikunni að forsvarsmenn ASÍ teldu forsendur nýgerðra kjarasamninga sinna brostnar. Skýringin á því er sú að skömmu eftir að samið var um 2,8% hækkun launa á almennun vinnumarkaði þurfti ekki nema tvær vikur af verkfalli í framhaldsskólum til að beygja stjórnvöld til að samþykkja 16% launahækkun kennara, og sú hækkun á öll að verða áður en teknar verða ákvarðanir um hvort vinnnufyrirkomulagi kennara verður breytt.

En hvernig geta menn sagt að þessi mikla launahækkun sem kennarar fengu, eftir tveggja vikna verkfall, raski forsendum kjarasamninganna á almennum vinnumarkaði? Datt einhverjum í hug að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hefðu úthald í verkfall? Þeir sem gera kjarasamninga og hafa það sem forsendu að í málaflokkum Sjálfstæðisflokksins ráði einhver við minniháttar átök, geta þeir ekki sjálfum sér um kennt?

Undanfarin ár hefur Sjálfstæðisflokkurinn alltaf gefist upp, ef hinn möguleikinn felur einhver átök í sér. Í stjórnarandstöðu á síðasta kjörtímabili náði hann engum árangri. Í borgarstjórn Reykjavíkur hóf hann samræðustjórnmál og hefur ekki jafnað sig enn. Frambjóðendur hans í sveitarstjórnarkosningum þora ekki að lofa útsvarslækkun því þá yrði spurt „Hvar ætlið þið að skera niður?“ og einhver kynni að verða óánægður með svarið.

Enda dettur frekustu mönnum landsins, íslenskum Evrópusinnum, ekki annað í hug en að forysta Sjálfstæðisflokksins beygi sig fyrir þeim í ESB-málinu og láti það eftir þeim að Ísland verði áfram umsóknarríki í Evrópusambandið. En þar gera þeir sér þó of miklar vonir. Jafnvel forystumenn Sjálfstæðisflokksins vita að ef þeir bregðast í því máli núna, hafa þeir brennt allar brýr að baki sér. ESB-málið verður það fyrsta í langan tíma þar sem Sjálfstæðisflokkurinn mun ekki gefast upp að óþörfu.

Þegar hvorki ríkisstjórn né meirihluti Alþingis vill ganga í Evrópusambandið kemur ekki til greina að Ísland sé áfram umsóknarríki. Þess vegna verður að afturkalla inngöngubeiðnina í Evrópusambandið með algerlega ótvíræðum hætti. Þangað til það er gert, er Ísland umsóknarríki í Evrópusambandið og lýsir því þannig yfir á hverjum degi á alþjóðavettvangi að það stefni í Evrópusambandið. Þess vegna kemur ekkert annað til greina en skilyrðislaus afturköllun inngöngubeiðnarinnar, og um það þarf enga nefndarfundi, umsagnir eða keyptar „skýrslur“.