Vefþjóðviljinn 108. tbl. 18. árg.
Óðinn í Viðskiptablaðinu bendir á lærdómsríkt dæmi um hvernig fyrirtæki og neytendur víkja sér undan lagasetningu og hvernig hún hefur í raun öfug áhrif við það sem henni var ætlað.
Vandi samfélagsverkfræðinganna sem ætla sér að stýra hagkerfinu með þjóðhagsvarúðartækjum er því ekki einungis að tiltæk gögn eru fátækleg heldur líka og ekki síður að fólk lagar sig að nýjum reglum. Dæmi um slíkt er nefnt í riti Seðlabankans en þar er sagt að ný lög um neytendalán herði kröfur um greiðslumat og færri hafi því aðgang að lánsfé. Seðlabankinn segir að áhrifa laganna gæti í nýjum lánum sem bílaumboð veiti án vaxta en í neytendalögunum er tekið fram að vaxtalaus lán séu undanþegin lögunum. Síðan er bent á að fjármagn sé ekki ókeypis og bílakaupendur greiði fyrir afnot fjármagnsins með öðrum hætti. Undanfarin ár hafa ýmsar fjármálaafurðir komið fram semkenndar eru við íslamska fjármála-fræði. Múhammeðstrúarmönnum er jafn illa við vexti og framsóknarmönnum við verðtryggingu því vextir samræmast ekki sharia lögum.
Múhammeðstrúarmenn skilja þó ólíkt framsóknarmönnum að notkun eða leiga fjármagns kostar og að verðið er lægra sem eftir því sem áhætta lánveitandans er minni. Lán þar sem greitt er fyrir notkun fjármagnsins með hærra innkaupaverði nefnist á arabísku Bai’ muajjal sem er tilvalið tökuorð í íslensku yfir nýju bílalánin.
Í stað þess að vextirnir séu öllum ljósir fela nýju neytendalögin þá í raun.
Hvað ætli hæstiréttur muni segja um lán þar sem vextirnir eru faldir í lánsfjárhæðinni? Ætli sé nokkur hætta á öðru í þjóðfélagi leiðréttinga að einhver beri þá spurningu upp við réttinn þegar harðnar á dalnum?