Vefþjóðviljinn 101. tbl. 18. árg.
Hæstiréttur dæmdi í gær að auðlegðarskattur, eins og hann hefur verið innheimtur samkvæmt núgildandi lögum, færi ekki í bága við stjórnarskrána. Ýmislegt var athyglisvert í dómnum, meðal annars þau orð Hæstaréttar að við „úrlausn um hvort lagaákvæðin um auðlegðarskatt séu stjórnskipulega gild verður að horfa til þess við hvaða aðstæður lögin voru sett”. Þegar skatturinn hafi verið innleiddur hafi verið „við að etja einstæðan vanda í ríkisfjármálum.”
Þessi orð eru athyglisverð vegna þess að þau gefa til kynna að við venjulegar aðstæður yrði litið öðruvísi á. Fyrst eftir bankahrunið hafi verið slíkar neyðaraðstæður að það hafi veitt ríkinu ákveðið svigrúm sem það hefur almennt ekki. Ráðstafanir sem megi réttlæta í skamman tíma, þegar glímt er við „einstæðan vanda“, muni missa gildi sitt þegar mesta neyðin er liðin hjá. Þetta ættu þeir að hafa í huga sem vilja að slíkur skattur sé varanlegur í landinu.
Þetta leiðir einnig hugann að skattlagningunni sem á að standa undir stórum hluta af skuldalækkunaráætlun stjórnvalda, bankaskattinum svonefnda. Er ekki að minnsta kosti öruggast, hvað sem að öðru leyti má segja um þessar skuldalækkanir, að þeir sem munu sækja um þær skuldalækkanir, gangist undir þann fyrirvara að lækkunin verði gerð með því skilyrði að skatturinn standist stjórnarskrána? Ættu stuðningsmenn og andstæðingar skuldalækkananna ekki að geta sameinast um slíkan fyrirvara, þótt þeir verði áfram ósáttir um önnur atriði málsins?
Og fyrst talað er um auðlegðarskattinn þá er sjálfsagt að ítreka þá skoðun að nafngift hans sé dæmi um ógeðfelldar aðferðir í skattlagningu. Lög eiga ekki að vera áróðurskennd. Heiti laga eiga að vera hlutlaus. Skatturinn er eignaskattur og það hefði verið hlutlaust heiti. En „auðlegðarskattur“ er ekki hlutlaust heiti, ekki frekar en „skattur á ríka pakkið“ eða „skattur á feita vonda kalla“ væri.