Laugardagur 5. apríl 2014

Vefþjóðviljinn 95. tbl. 18. árg.

Hið opinbera skuldar geysilegar fjárhæðir. Það er lykilatriði varðandi framtíðarlífskjör í landinu að grynnkað verði mjög verulega á þeim skuldum á allra næstu árum. Því miður eru hins vegar nær engin teikn á lofti um að menn skilji hversu ofboðslegs átaks er þörf í þeim efnum. Átaks sem gerbreytir því hvaða kröfur menn geta gert um opinberan stuðning við áhugamál sín.

Það segir meira en mörg orð um skilningsleysið á skuldastöðunni og nauðsyn þess að minnka skuldirnar, að fjárlög voru síðast samþykkt með afgangi sem var næstum innan skekkjumarka. Með þeim árlega afgangi þyrfti meira en þrjúþúsund ár til að greiða borga upp núverandi skuldir ríkisins.

Til þess að fólk skilji þá hugarfarsbreytingu sem verður að verða sem allra fyrst, verða stjórnvöld að ráðast í raunverulegan niðurskurð, og þá einnig táknrænan niðurskurð. Það verður að slá á kröfugerðirnar á hendur ríkinu og þess vegna verður að senda skilaboð um að hlutverk hins opinbera sé að breytast.

Mjög táknrænt dæmi er Listahátíð í Reykjavík.

Fyrstu fjörutíu árin frá því fyrst var efnt til hennar var hátíðin haldin annað hvert ár. En þegar nokkur ár voru liðin af þessari öld töldu stjórnmálamenn sig hafa svo mikla peninga. Þá mátti helst aldrei segja nei við neinn þrýstihóp. Þá var ákveðið að Listahátíð yrði haldin á hverju ári og það hefur verið gert síðan.

Örlítil aðgerð, sem fyrst og fremst hefði táknrænt gildi, væri að breyta þessu aftur til fyrra horfs. Að ákveða að framvegis yrði hátíðin haldin annað hvert ár, á kostnað skattgreiðenda, en ekki á hverju ári. Auðvitað ættu skattgreiðendur alveg að hætta að borga slíka hátíð fyrir áhugamenn um Listahátíð, en enginn gerir sér vonir um slíka nýfrjálshyggju.

En hverjum dettur í hug að núverandi yfirvöld ríkis og borgar láti sér detta í hug slík ósvinna að færa Listahátíð aftur til þess horfs sem viðhaft var í fjörutíu ár? Ráðherrarnir vilja fá hrós fyrir að vera menningarlegir. Það tókst meira að segja að hræða menn frá því að lækka starfslaun listamanna, með því að ráðast á Vigdísi Hauksdóttur fyrirfram fyrir lækkunina í nokkra daga. Og árásirnar á Vigdísi voru líka skilaboð til annarra stjórnmálamanna.

Ráðherrunum dettur ekki í hug að segja að framvegis verði Listahátíð haldin annað hvert ár. Dettur það alls ekki í hug. Þeir yrðu gagnrýndir í menningarkreðsunum. Ekki einn einasti frambjóðandi til borgarstjórnar mun þora það heldur.