Föstudagur 4. apríl 2014

Vefþjóðviljinn 94. tbl. 18. árg.

Sigurður G. Guðjónsson lögmaður varpaði því fram í Ríkissjónvarpinu á sunnudagsmorgun að íslenska ríkið hefði átt að lýsa stórfelldum kröfum í þrotabú gömlu bankanna vegna þess tjóns sem varð við fall þeirra.

Það hefði auðvitað verið hin eðlilega leið hefði ríkið talið sig eiga slíkar kröfur. Í framhaldinu hefði væntanlega þurft að láta á þær reyna fyrir dómi. En það var hins vegar ekki gert. Skemmdarverk breskra stjórnvalda í miðju bankahruninu voru sömuleiðis látin óátalin.

Vilhjálmur Bjarnason alþingismaður vakti í sama þætti athygli á því að ef ríkið ætlaði sér inn á þá braut að bæta mönnum „forsendubrest“ í viðskiptum ættu auðvitað allir að fá að lýsa sínum „forsendubresti“, jafnt þeir sem töpuðu vegna fasteignalána, námslána, bílalána, verðbréfaviðskipta og þeir sem misstu vinnuna við hrun bankanna.

Nú er hins vegar farin af stað einhvers konar innheimtuaðgerð ríkisins gagnvart fjármálakerfinu, án þess að lýsa kröfum, þar sem þingmenn kveða upp úr um hvaða banki hafi borið ábyrgð á meintu tjóni og hver ekki. Bankar sem ekki voru til fyrir hrunið 2008 heldur stofnaðir eftir það af ríkinu sjálfu og eru að hluta eða öllu leyti í eigu ríkisins eru taldir bera ábyrgð ef skuldbindingar þeirra eru árið 2013 (!) yfir 50 milljarðar króna. Auðvitað verða það svo viðskiptavinir þeirra sem greiða þetta á endanum með lakari vaxtakjörum.

Þingmenn hafa sömuleiðis tekið að sér að útdeila því sem innheimta á úr þrotabúunum, hver fái bætur fyrir „forsendubrest“ og hver ekki, hve mikið.

Allt er þetta gert á svig við hefðbundnar leiðir réttarríkisins. Hér varð jú auðvitað hrun fjármálakerfis, mikil ósköp, en það er ekki þar með sagt að það gefi tilefni til að naga aðra undirstöður þjóðfélagsins.