Vefþjóðviljinn 90. tbl. 18. árg.
Sjálfstæðisflokkurinn er sá stjórnmálaflokkur sem gengur lengst í að beita lýðræðislegum aðferðum við að koma sér saman um stefnu sína og velja fólk til að fylgja henni fram. Því ætti þeim sem leiða flokkinn hverju sinni að vera morgunljóst til hvaða verka þeir eru kjörnir og hvert lýðræðislegt umboð þeirra sé.
Þannig má taka dæmi af þeim aðlögunarviðræðum að Evrópusambandinu sem síðasta ríkisstjórn hóf. Forystumönnum Sjálfstæðisflokksins myndi nægja að kíkja í ályktanir landsfunda flokksins til að sjá hver varð hin lýðræðislega niðurstaða þegar flokksmenn réðu ráðum sínum um það mál. Þannig stendur í ályktun utanríkisnefndar á landsfundi 2013:
Áréttað er að aðildarviðræðum við ESB verði hætt og þær ekki teknar upp aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.
Ef forystumenn flokksins eru samt sem áður óvissir og hvikandi í því hvað komi flokknum best þurfa þeir ekki að örvænta því til eru nokkrir sérstakir menn sem eru óbilandi kompás til að sigla eftir. Hið eina sem þarf að gæta sín á er að sigla í þveröfuga átt frá því sem þeir klifa á.
Þannig getur forysta flokksins reitt sig á að hún er komin í óefni þegar slíkir menn fara að skjalla hana, svo sem gerðist þegar hún villtist af leið undir lokin í Icesave málinu, en að vel gengur þegar þessir öfugmælamenn kvarta sem sárast undan svikum flokksins við þá sem í honum eru.
Þannig getur forysta flokksins huggað sig við að eitthvað hlýtur hún að vera að gera rétt þessa dagana, þegar sjálfur Björn Valur Gíslason, sem féll af þingi í síðustu kosningum en titlar sig enn „Alþm. Norðaust síðan 2009 (Vg.)“ á heimasíðu sinni, birtir á síðunni pistil undir titlinum „Bjarni er búinn að vera.“ Grætur hann þar beiskum tárum yfir svikum Bjarna við hinn almenna stuðningsmann Sjálfstæðisflokksins og lýsir því yfir að þessi almenni stuðningsmaður muni ekki sætta sig við það til lengdar.
Lýsir Björn Valur því á átakanlegan hátt að „undir forystu Bjarna hefur [S]jálfstæðisflokkurinn glatað þeirri reisn sem hann hafði í hugum stuðningsmanna í gegnum árin. Hann er ekki forystuflokkur eins og áður var.“ Svo fellur dómur Björns Vals: „Bjarni hefur tapað. Hann er búinn að vera.“ Ef nokkur efi var í hugum forystu Sjálfstæðisflokksins um hvaða kúrs sé rétt að halda varðandi viðræður um innlimun Íslands í Evrópusambandið er sá efi vonandi rokinn út í veður og vind eftir lestur þessarar varnarræðu fyrir „hinn almenna stuðningsmann“.