Helgarsprokið 30. mars 2014

Vefþjóðviljinn 89. tbl. 18. árg.

Stóreignamenn fá í mörgum tilvikum hærri svokallaða leiðréttingu frá ríkinu en fólk sem orðið hefur eignalaust á íbúðakaupum.
Stóreignamenn fá í mörgum tilvikum hærri svokallaða leiðréttingu frá ríkinu en fólk sem orðið hefur eignalaust á íbúðakaupum.

Nú eru komin fram lagafrumvörp um að þjóðnýta einkaskuldir sem stofnað hefur verið til vegna íbúðarkaupa undanfarna áratugi. Skuldir sumra verða gerðar að skuldum allra.

Þetta er sagt gert vegna „forsendubrests“ en þar er átt við að vísitala neysluverðs hafi hækkað umfram væntingar. Undanfarin áratug hefur hækkunin verið 5,8% á ári. Hefði einhverjum komið á óvart ef því hefði verið spáð fyrir áratug að hækkuninn yrði nálægt 6% á ári? Hefðu það þótt furðufréttir? Þá hefði hinn furðu lostni vart fylgst vel með í landinu sínu því verðbólga áranna 1999 til 2001 var að meðaltali yfir 6%. Og 2005 til 2007 var verðbólgan að meðaltali 5,3%.

Þegar haft er í huga að húsnæðiskaup eru jafnan fjármögnuð með lánum til nokkurra áratuga er það galið að hlaupa til og bæta mönnum óhagstæða þróun á tveggja ára tímabili líkt og nú á að gera fyrir árin 2008 til 2009.

Það má taka tvö dæmi um hvernig þessi aðgerð kemur út.

I. Sigmundur sem keypti hús árið 1997 með 100% láni hefur greitt vexti af láninu síðan skuldar um 60% í húsinu í dag. Hrein eign hans í húsinu hleypur á tugum milljóna króna. Hann fær hámarks „leiðréttingu“ upp á 4 milljónir króna. Hann hefur háar tekjur og mun því einnig geta nýtt að fullu skattfríðindi sem felast í því að nota séreignasparnað til niðurgreiðslu húsnæðisskulda.

II. Davíð sem keypti litla íbúð árið 2007 með 70% láni og hefur greitt vexti af láninu síðan á skuldar um 100% í dag. Hann á ekki neitt, hefur tapað öllu sparifé sínu á íbúðarkaupunum. Hann fær ekki hámarks „leiðréttingu“ eins og Sigmundur. Þar að auki missti hann vinnuna nýverið og hyggur á frekara nám svo óvíst er hvort hann muni geta nýtt sér skattfríðindi séreignasparnaðar.

Öreiginn Davíð mun fá lægri fjárhæð frá skattgreiðendum en eignamaðurinn Sigmundur í „leiðréttingu“ á „forsendubresti“.