Laugardagur 29. mars 2014

Vefþjóðviljinn 88. tbl. 18. árg.

Vikublaðið Fréttatíminn er kominn í herferð gegn því að hinn stóri stofn hvala við landið sé nýttur. Sigríður Dögg Auðunsdóttir ritstjóri skrifar í nýjasta tölublaðið:

Ferðamálayfirvöld telja hvalveiðar Íslendinga skaða ímynd landsins – og fyrir það eitt ættum við að hætta þeim.

Ferðamálayfirvöld! Ekki Alþingi. Ekki ríkisstjórnin. Ekki sjávarútvegsráðherra. Ekki einu sinni viðhorfskannanir. Ferðamálayfirvöld eiga að ákveða þetta!

Það eru líklega sömu yfirvöld og telja ferðaþjónustuna of góða til að greiða sama virðisaukaskatt af gistingu og aðrir greiða, helst ekki vörugjöld af bílaleigubílum eins og öðrum bílum og vilja alls ekki að fínu ferðamennirnir greiði fyrir að troða helstu náttúruperlur landsins niður.

Og svo eru það reyndar ekki „við“ sem erum veiða hvali heldur nokkrir hvalveiðimenn. Það er þeirra gamalgróna vinna, áhugamál og atvinnufrelsi. Jafnvel þótt „við“ hefðum flest sömu ranghugmyndir um hvali og sumir aðrir Vesturlandabúar væri það ekki léttvægt á móti atvinnufrelsi þessara manna?

Meginstefið í grein Sigríðar er að aðrir hagsmunir en hvalveiðar vegi þyngra. Þess vegna eigi hvaðveiðirnar að víkja. En hvar endar slík röksemdafærsla? Nú þegar ferðaþjónustan er sögð „skapa meiri gjaldeyristekjur“ en sjávarútvegur verður allri útgerð þá hætt hér þegar græningjar færa sig upp á skaftið gagnvart nýtingu sjávarauðlinda?