Vefþjóðviljinn 87. tbl. 18. árg.
Menn þurfa ekki að horfa lengi á fréttir Ríkisútvarpsins til að sjá að ekki er lengur yfirlýst vinstristjórn við völd. Fréttamenn eru nefnilega í samfelldum vandamálagír.
Nú er Vefþjóðviljinn vitaskuld á móti þeirri ákvörðun stjórnvalda að nota opinbert fé til að lækka verðtryggðar húsnæðisskuldir landsmanna. Skattfé eigi ekki að nota í slíka hluti, hvort sem skattgreiðendurnir eru feitir karlar, gamlar konur eða illa þokkaðir bankar. Ekki eigi að þjóðnýta einkaskuldir. Þess vegna hefur þessi stefna stjórnvalda verið hér harðlega gagnrýnd.
Í fréttum hefur hins vegar verið reynt talsvert til að ýta undir óánægju með tillögur stjórnvalda, en af allt öðrum ástæðum. Það hefur verið reynt eins og menn geta að ýta undir þá tilfinningu að ekki sé nóg gert. Að menn fái ekki nógu mikið úr ríkissjóði. Að ekki sé nógu mikið gert fyrir tiltekna hópa. Þannig gerði Ríkisútvarpið langa frétt um hversu mikið þá, sem væru á lægri tekjum, gæti vantað upp á að fullnýta mögulegan skattaafslátt vegna innborgunar á húsnæðislán. Forkólfar vinstrimanna láta eins og þeir séu undrandi og reiðir yfir því að þessar aðgerðir komi ekki sérstaklega til móts við þá sem búi við kröppust kjör, hafi lægstu launin og búi í leiguhúsnæði.
En þessum aðgerðum var ætlað allt annað hlutverk. Það var alltaf talað um að orðið hefði „forsendubrestur“ og að það fólk, sem hefði tekið verðtryggð fasteignalán, ætti að fá hann „bættan“. Það fyrra er mjög umdeilanlegt en það síðara fráleitt, að mati Vefþjóðviljans. En engu að síður, þetta var það sem talað var um. Jafnvel loforðaglöðustu menn fyrir kosningar héldu sig við þetta síðasta vor, það ætti einfaldlega að bæta einhvern „forsendubrest“ þeirra sem hefðu tekið verðtryggt lán til kaupa á íbúðarhúsnæði. Þeir sem á annað borð samþykkja þetta tvennt, forsendubrest fasteignalántakenda og að hann eigi að bæta, þeir eiga þá að halda sig við það. Hafi orðið tjón sem á að bæta, þá snýst málið um það, en ekki aðra hluti, þó fréttamenn og aðra stjórnarandstæðinga langi greinilega mikið til að ala á óánægju með að ekki sé nóg gert, þegar mörgum tugum milljarða er dælt úr ríkissjóði til að lækka einkaskuldir.