Miðvikudagur 26. mars 2014

Vefþjóðviljinn 85. tbl. 18. árg.

Gísli Marteinn Baldursson starfsmaður Ríkisútvarpsins bauð lesendum á Twitter nýlega upp á þessa skýringu á litlu fylgi Sjálfstæðisflokksins:

Fyrrum borgarfulltrúi tístir um skort á úthverfaandúð hjá borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins.
Fyrrum borgarfulltrúi tístir um skort á úthverfaandúð hjá borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins.

Til að fá staðfestingu á þessari merku kenningu sótti Vefþjóðviljinn því fylgistölur Sjálfstæðisflokksins á landsvísu undanfarin áratug á Datamarket en þær byggja á könnunum Capacent.

Hvar ætli mislægu gatnamótin og flugvöllurinn komi fram á þessari mynd af fylgi Sjálfstæðisflokksins? Já og fylgistapið vegna þess að íhaldið í flokknum leggur ekki fæð á úthverfin? Auðvitað sést ekkert af þessu enda engir nema kannski helstu gestir í Flissað með frægum á sunnudagsmorgnum sem skipa sér í flokk eftir þessum málum.

Bankahrunið og Icesave-dómurinn eru hins vegar greinileg. Útkoma rannsóknarskýrslu Alþingis sést einnig nokkuð vel í apríl 2010. Grátlegast fyrir Sjálfstæðisflokkinn er þó Icesave málið. Þeim mistökum hefði svo auðveldlega mátt afstýra. Sjálfstæðisflokkurinn hefur einfaldlega ekki náð sér eftir að forysta hans fór að ráðum örfárra Evrópusinna í flokknum, samþykkti að gangast undir síðasta samninginn og dómur gekk í málinu.

Að tengja fylgistap flokksins við að hann hafi ekki verið nægilega andsnúinn bílum, úthverfum og flugvellinum er því fráleitt.

Og við hvað var Gísli Marteinn Baldursson, þá kjörinn fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, annars upptekinn á meðan svo margir almennir og ólaunaðir félagar hans í Sjálfstæðisflokknum börðust við ofurefli ríkisstjórnar, þings, fjölmiðla og hagsmunasamtaka gegn síðustu Icesave-ánauðinni?

Hafði fundist paprika pökkuð í plast í Melabúðinni?