Vefþjóðviljinn 73. tbl. 18. árg.
Þeir halda áfram á hverjum degi, starfsmenn Ríkisútvarpsins. Þeir telja víst að forystumenn Sjálfstæðisflokksins missi kjarkinn, það þurfi bara að nudda aðeins áfram, og þá gefist þeir upp.
Í gærkvöldi sló fréttastofa Ríkisútvarpsins því til dæmis upp að ráðherrar hefðu hreinlega verið gagnrýndir á Alþingi fyrir að greiða atkvæði með því að kvöldfundur yrði haldinn í þinginu, en hefðu svo ekki setið fundinn sjálfir. Öll fréttin var um þetta.
Hvernig létu fréttamenn á síðasta kjörtímabili, þegar vinstristjórnin lét halda hvern kvöldfundinn á fætur öðrum? Voru þá gerðar miklar fréttir um það hvort ráðherrar hefðu setið alla kvöldfundina? Katrín Jakobsdóttir, Katrín Júlíusdóttir, Jóhanna Sigurðardóttir, Ögmundur Jónasson og þau, sátu þau alla nóttina og tóku þátt í umræðum? Fjallaði Ríkisútvarpið oft um það?
Var það ekki fremur þannig á síðasta kjörtímabili að fréttastofa Ríkisútvarpsins gerði um það ítrekaðar fréttir hversu margar ræður hver og einn stjórnarandstæðingur hafði haldið um umdeildustu málin, greinilega til þess að þrýsta á þá að láta af andófi sínu, þá sjaldan sem reynt var að halda andófi uppi? Enda lauk því yfirleitt alltaf með því að stjórnarandstaðan samdi um að ljúka umræðunni, án þess að fá neitt í staðinn. Þingmenn stjórnarandstöðunnar gáfust upp, eftir að fréttastofa Ríkisútvarpsins og álitsgjafar voru búnir að gagnrýna þá í nokkra daga. Enda treysta fréttamenn og álitsgjafar því greinilega að nú muni taka jafnskamman tíma að hræða sömu þingmenn til uppgjafar í ESB-málinu.
Í dag gerði Ríkisútvarpið frétt um að hvorki fleiri né færri en um fimmtán manns hefðu staðið fyrir utan stjórnarráðið og veifað banönum, til að fylgja eftir kröfunum um uppgjöf ríkisstjórnarinnar. Um fimmtán manns mæta og veifa banönum, og það er gerð frétt. Áhugi fréttastofu Ríkisútvarpsins á „mótmælum“ virðist alveg takmarkalaus, svo lengi sem um „rétt“ mótmæli er að ræða. Það er ekki undarlegt að menn haldi áfram að mæta og segja sömu hlutina, þegar þeir vita að í Efstaleiti þykir hver og ein endurtekning sama boðskapar alltaf jafn fréttnæm.
Á mánudaginn ræddu fréttamenn það, að forseti Alþingis hefði boðað til fundar formanna flokkanna úr forsetastólnum í þinginu, eins og það væri stórmál. Eins og það geti einhverju máli skipt og átt erindi í fréttir. Á hverjum degi er fundið eitthvert smáatriðið og blásið upp, allt í þeirri von að forystumönnum Sjálfstæðisflokksins fallist hendur og þeir fari að halda að þeir verði bara að gefast upp fyrir minnihlutanum.
En það eiga þeir alls ekki að gera. Ísland ætlar ekki að ganga í Evrópusambandið og því verður Alþingi að draga inngöngubeiðni landsins í það til baka. Það er alls ekki flókið og meirihlutinn á ekki að láta minnihlutann kúga sig í því máli.