Vefþjóðviljinn 72. tbl. 18. árg.
Þingmenn vinstrigrænna hafa nú fengið einstakt tækifæri til að bæta fyrir þau augljósu svik er ríkisstjórn þeirra sótti um aðild að Evrópusambandinu fyrir Íslands hönd. Það er ekki oft sem slík færi gefast stjórnmálamönnum. Þingmenn VG geta veitt tillögu utanríkisráðherra, um að draga aðildarbeiðnina til baka, stuðning sinn og átt þar með þátt í því að binda enda á þá sorgarsögu sem hlutur þeirra í þessu máli er. Með stuðningi gætu þeir endanlega komið í veg fyrir að þeim verði kennt um að hafa með dæmalausum svikum átt upphafið að því að Íslendingar enduðu í ESB.
Þeir gætu jafnvel náð sama árangri með því að láta lítt á sér bera og veita tillögunni stuðning í hljóði.
En nei nei. Nú standa þeir í röðum við ræðustól þingsins til að bregða fæti fyrir tillöguna. Vinstri grænir leggjast jafnvel í málþóf til að koma í veg fyrir að fína aðildarumsóknin þeirra verði afturkölluð.
En vilja vinstrigrænir ekki bara þjóðaratkvæðagreiðslu um málið? Kanntu annan? Eftir síðasta kjörtímabil hvarflar ekki að nokkrum manni að vinstrigrænir styðji þjóðaratkvæðagreiðslur. Forystumenn þeirra máttu vart mæla af bræði þegar haldnar voru þjóðaratkvæðagreiðslur um það hvort skipa ætti Íslendingum til þrældóms á Icesave galeiðunni.
Það fer bara ekkert á milli mála lengur . Vinstri hreyfingin grænt framboð styður aðild Íslands að Evrópusambandinu.