Vefþjóðviljinn 63. tbl. 18. árg.
ESB-sinnar í Sjálfstæðisflokknum hafa haldið því stíft að fólki að undanförnu að flokkurinn tapi fylgi vegna þess að þingflokkurinn styður tillögu um að hætta viðræðum um aðild Íslands að ESB í samræmi við eindregna ályktun landsfundar flokksins.
Þetta eru mestmegnis sömu mennirnir og lögðu mjög að forystu Sjálfstæðisflokksins að samþykkja síðasta Icesave „samning“ Jóhönnu og Steingríms þrátt fyrir afdráttarlausa ályktun landsfundar um að hafna hinum löglausu kröfum Breta og Hollendinga. Eina skýringin á þessum ráðleggingum er að ESB-sinnar vildu ekki að Icesave deilan truflaði aðildarviðræðurnar.
Hverjar voru afleiðingar þessara heilræða ESB-sinnanna sem forysta Sjálfstæðisflokksins kaus að fylgja? Jú þegar niðurstaða EFTA-dómstólsins lá fyrir í lok janúar 2013 tók fylgi Sjálfstæðisflokksins að hrapa en það hafði þá lítt vikið frá 36% í nær þrjú ár. Samkvæmt Capacent var fylgið í janúar 2013 36% en féll niður í 30% í febrúar og svo áfram niður í 24% í mars.
Á sama tíma jók Framsóknarflokkurinn fylgi sitt úr 14 í 27%. Það er því fjarstæðukennd kenning að Sjálfstæðisflokkurinn hafi tapað fylgi vegna ályktana landsfundar flokksins um ESB. Fylgið fór yfir á Framsóknarflokkinn sem hafði sömu afstöðu til ESB og landsfundur Sjálfstæðisflokksins.
Sjálfstæðisflokkurinn fékk skell í síðustu kosningum vegna þess að Þorsteinn Pálsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Benedikt Jóhannesson og fleiri ESB-sinnar fengu forystu hans til að ganga gegn skýrum ályktunum landsfundar um Icesave.
Og það eru þau sem uppnefna félaga sína í Sjálfstæðisflokknum kjána, kommúnistasamtök, svartstakka og svikara.