Vefþjóðviljinn 62. tbl. 18. árg.
Hvað myndu menn ráðleggja þeim manni, sem ræður alls ekki við að sjá mannsblóð? Sjái hann blóð verður hann alveg magnlaus, fæturnir skjálfa og hann verður óvinnufær.
Fyrsta ráðleggingin yrði líklega að hann ætti ekki að fá sér starf sem skurðlæknir.
Hvað myndu menn ráðleggja því fólki sem ekki þolir nokkra daga af ofsafenginni notkun ljósvakamiðla gegn því, nokkrar Fréttablaðsforsíður og skoðanakannanir sem alltaf verða gerðar í beinu framhaldi af slíkri skyndiherferð? Því fólki sem alltaf trúir því þegar vinstrisinnaðir fjölmiðlamenn segja að einmitt nú hafi það gert mikil mistök.
Fyrsta ráðleggingin yrði líklega að það ætti alls ekki að taka að sér forystustarf í Sjálfstæðisflokknum. Og ef ekki yrði hjá því komist að taka slíkt starf að sér, þá yrði það að gæta þess að fylgja alltaf línu vinstrimanna í öllum mikilvægum málum.
Því menn fá alltaf þessa breiðsíðu. Ríkisútvarpið verður notað í hverjum fréttatímanum á fætur öðrum. Andstæðingar forystu Sjálfstæðisflokksins munu verða kallaðir í alla viðtalsþætti og helstu stóryrði spiluð í fréttatímum í sólarhring. Hinir örfáu andstæðingar innanflokks verða sérstaklega eftirsóttir gestir. Fríblað verður helgað málefninu og dreift óumbeðið í öll hús á höfuðborgarsvæðinu. Eftir rúma viku af þessu verður alltaf gerð skoðanakönnun og hún verður alltaf slæm. Þetta vita allir. Þetta verður alltaf svona.
Ef opinberir vinstrimenn og fjölmiðlamenn fá minnsta grun um að einungis vanti herslumuninn til að þingmenn Sjálfstæðisflokksins missi kjarkinn, þá munu þeir eflast um allan helming. Hvað er auðveldara en að fylkja samherjum sínum á fund, ef þeir telja sig geta treyst því að hinir gefist upp ef nógu margir andstæðingar þeirra steyta hnefann og nota nógu ljót orð um þá?
Auðvitað veit forysta Sjálfstæðisflokksins þetta. Hún veit að ef hún gefst upp fyrir slíkri herferð, sem var algjörlega fyrirsjáanleg, þá hefur hún misst alla möguleika til að stjórna í landinu. Þá mun hún ekki geta gert annað en að bíða eftir næstu kosningum, þar sem ekki einu sinni samherjarnir munu bera blak af henni. Hún mun ekki geta gert neinar breytingar sem máli skiptir á nokkru sviði. Menn munu ná nokkrum utanlandsferðum, dagpeningum og frípunktum, en þeir munu ekki ná neinum pólitískum árangri á neinu sviði.
Það eru meira en þrjú ár í kosningar, ef menn halda sínu striki núna. Hvers vegna ætti ráðherrunum að detta í hug að gera sig sjálfviljugir að lame ducks núna, algerlega að óþörfu? Ef þeir gefast upp fyrir skyndisókninni, þá eru þeir í raun búnir, og það hljóta þeir að vita.
Og varla eru ráðherrar Sjálfstæðisflokksins svo miklir viðvaningar í stjórnmálum, að þeir haldi að þeir fái eitthvað jákvætt að launum, ef þeir gefa eftir í lykilmálum? Hefur einhverjum sýnst það á orðbragðinu um Bjarna Benediktsson síðustu tvö árin, að vinstrimenn beri meiri virðingu fyrir honum fyrir að hafa stutt Icesave-III?
Óbreyttir Sjálfstæðismenn munu varla láta bjóða sér annað Icesave-mál. Forystan og meirihluti þingflokks fór gegn landsfundi og skýrri stefnu flokksins í Icesave-málinu, til að láta undan ofsanum í örfáum ESB-sinnum í flokknum. Ef sama fólk svo mikið sem veltir því fyrir sér nú að endurtaka þann leik, þá er þessu lokið. Nú verða menn einu sinni að standa af sér moldviðri. Málstaðurinn er borðliggjandi, rökin skýr og andstæðingarnir virðast viti sínu fjær af ofsa og hræðslu.