Helgarsprokið 2. mars 2014

Vefþjóðviljinn 61. tbl. 18. árg.

Er hið svonefnda stuðningskerfi landbúnaðarins honum í raun til stuðnings? Hvort sem er eiga hvorki neytendur né bændur að þola það ófrelsi sem í því felst.
Er hið svonefnda stuðningskerfi landbúnaðarins honum í raun til stuðnings? Hvort sem er eiga hvorki neytendur né bændur að þola það ófrelsi sem í því felst.

Þetta er þægilegt.

Tollar eru fyrirbæri sem gagnast framleiðendum í viðskiptum. Ég fæ að selja hjá þér og þú færð í staðinn að selja hjá mér. Við munum ekki einhliða fella niður tolla á erlenda matvöru á meðan okkar útflutningsvörur, eins og lambakjötið og skyrið, bera tolla þegar við seljum þær til annarra landa.

Önnur ríki haga sér heimskulega og skaða neytendur og skattgreiðendur með tollum, innflutningshöftum og niðurgreiðslum. Þá nýtum við auðvitað tækifærið og gerum það líka!

Tilvitnunin hér að ofan er úr ávarpi Sigurðar Inga Jóhannssonar landbúnaðarráðherra á Búnaðarþingi í dag.

Með því að gera kröfu um að allir felli niður tolla á sömu stundu getur hver bent á annan og tollar verða hvergi afnumdir.

Meira úr ávarpi ráðherrans:

Ákveðin öfl í samfélaginu vilja brjóta niður stuðningskerfi landbúnaðarins og skeyta lítið um það sem tekur við, svo lengi sem þeirra eigin hagsmunum er borgið. Þetta er óábyrg afstaða.

Það er auðvitað ekki ljóst hvort hið svonefnda stuðningskerfi landbúnaðarins sé honum í raun til stuðnings eða framdráttar. Margt bendir til að svo sé ekki. Hvaða áhrif hafa til að mynda framleiðslukvótar í mjólkurframleiðslu á nýliðun og vöruþróun? Styrkir og niðurgreiðslur hafa sömuleiðis ýmis áhrif sem ekki eru mjög sýnileg. Þeir halda lífi í óhagkvæmum rekstri og skaða um leið hagkvæman.

Og hvaða „ákveðnu öfl“ eru það er sem vilja velja sér mat úr hillum verslana án aðstoðar Sigurðar Inga? Eru það ekki heimilin í landinu, venjulegir neytendur?