Laugardagur 1. mars 2014

Vefþjóðviljinn 60. tbl. 18. árg.

Bjórmottunni er dreift um helgina.
Bjórmottunni er dreift um helgina.

Samtök skattgreiðeinda dreifa um helgina glasamottum á veitinga – og skemmtistaði í Reykjavík og nágrenni og í nokkrum bæjarfélögum úti á landi. Glasamottunum er ætlað að vekja athygli á háum skatti hins opinbera á bjór.

Í dag eru liðin 25 ár liðin frá afnámi banns við sölu bjórs á Íslandi. Það er kippa í verðlaun fyrir þann sem fyrstur sendir rétt svar við því hve margir sitja enn á þingi sem greiddu atkvæði gegn því að afnema bann við sölu áfengs öls. Öllu meira áhyggjuefni er þó hve margir sem nú sitja á þingi, en gerðu að ekki fyrir aldarfjórðungi, hefðu án efa stutt bannið á sínum tíma.

Með þessu átaki Samtaka skattgreiðenda er ekki aðeins ætlunin að vekja athygli á þeirri staðreynd að ríkið tekur til sín að meðaltali 75% af smásöluverði bjórs sem seldur er í verslunum ÁTVR og í kringum 50% af smásöluverði á veitingahúsum. Einnig er markmiðið að vekja athygli á tilraun hins opinbera til að stjórna neyslu og lífsstíl fólks með skattlagningu, regluverki, innflutningshöftum o.s.frv. Hið opinbera, embættismenn og sérfræðingar á þess vegum eiga ekki, og geta ekki, metið hvað einstaklingnum er fyrir bestu hverju sinni og þaðan af síður hvað veitir honum ánægju og lífsfyllingu.