Vefþjóðviljinn 34. tbl. 18. árg
Níu manns munu nú hafa verið ákærð fyrir að hafa neitað að fara eftir fyrirmælum lögreglunnar, en það er fólkið sagt hafa gert þegar það reyndi að hindra vegaframkvæmdir við Gálgahraun. Þetta mál verður að sjálfsögðu notað í áróðursskyni og ekki við öðru að búast. Á þingi hefur fólkinu þegar verið líkt við bæði Gandhi og Mandela enda málstaður allra svipaður og hættan sem þeir leggja í sig í fyrir hann líka. Martin Luther King er ekki kominn enn, en væntanlegur.
Vefþjóðviljinn hefur ítrekað lagt til að hætt verði við vegaframkvæmdina við Gálgahraun og einnig bent á að þær bætur, sem ríkið kynni að þurfa að borga vegna þess, myndu einungis nema broti af framkvæmdakostnaðinum. Vefþjóðviljinn hefur með öðrum orðum haft talsverða samúð með málstað þeirra sem mótmælt hafa framkvæmdunum.
Fólkið sem er ákært, er hins vegar ekki ákært fyrir „að mótmæla“.
Sumir virðast telja að í réttinum til að „mótmæla“ felist að menn megi knýja vilja sinn fram með valdi. Að í réttinum til að mótmæla framkvæmdum felist réttur til að stöðva þær með valdi. Að í réttinum til að segja skoðun sína felist réttur til að hrópa hana svo hátt að það hindri lögmæta starfsemi í nálægum húsum eða ræni annað fólk vinnufriði eða heimilisró.
Slíkt er af og frá. Þeir sem eru andvígir ríkisrekstri sinfóníuhljómsveitar mega segja þá skoðun opinberlega og rökstyðja hana. Þeir mega bjóða fram í kosningum til að berjast fyrir þeirri skoðun. En finnst mönnum að þeir megi stilla sér upp við innganginn á tónleikasalnum svo gestir komist ekki inn? Eða gera svo mikinn hávaða fyrir utan að gestirnir heyri ekki í hljómsveitinni?
Menn hafa rétt til að „mótmæla“. Sumir kalla þann rétt heilagan. En er orðið „mótmæla“ ekki óvenjulega auðskilið orð? Snýst það ekki um að „mæla í mót“?