Vefþjóðviljinn 28. tbl. 18. árg.
Góðir menn hafa lagt til að 28. janúar verði baráttudagur gegn ríkisábyrgð. Það er vel til fundið enda ár liðið síðan sem kröfunni um ríkisábyrgð á Icesave var í raun hrundið.
Og það er af nógu að taka. Nýlega kynnti ríkisstjórnin til að mynda að ríkið myndi taka ábyrgð á um 13% af skuldum þeirra sem eru með verðtryggð húsnæðislán. Það er sagt kosta ríkissjóð um 80 milljarða króna í beinum útgjöldum. Helstu hvatamenn að þessari ríkisábyrgð reyndust þeir sem stóðu sig alveg ágætlega í baráttunni gegn ríkisábyrgð á Icesave.
Því er einnig haldið fram að Íbúðalánasjóður og skuldbindingar lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins séu á ábyrgð ríkisins. Þar eru þá mörg hundruð milljarðar sem bíða þess að skattgreiðendur axli ábyrgðina.
Almennt dregur ríkisábyrgð úr ábyrgðartilfinningu manna. Þegar stjórnendur banka þykjast vita að skuldbindingum bankans við viðskiptamenn hans verði smurt á alla skattgreiðendur í gegnum ríkissjóð ef illa fer geta þeir leyft sér að taka meiri áhættu en ella.
Fyrir þessu gerði Gunnlaugur Jónsson góða grein í Ábyrgðarkveri sem fæst í Bóksölu Andríkis.