Vefþjóðviljinn 24. tbl. 18. árg.
Alþingismenn deildu í dag um það hvort íslenskir ráðherrar ættu að fara á vetrarólympíuleikana í Rússlandi. Þingmenn Samfylkingarinnar vilja það alls ekki. Í Rússlandi séu mannréttindi brotin og því sé mjög mikilvægt að íslenskir ráðherrar fari ekki. Íslensku ráðherrarnir segjast ætla að fara, en þeir muni láta Pútín heyra það í ferðinni, ef tækifæri gefst til.
Þetta er dæmigerð íslensk umræða. Á síðasta ári fór Jóhanna Sigurðardóttir, sem þá var bæði forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, til Kína. Hún fór ekki til að horfa á æsispennandi keppni í skíðagöngu heldur til að gera sérstakan viðskiptasamning við kommúnistastjórnina, eftir að hafa kannað heiðursvörð kínverska hersins við Torg hins himneska friðar. Urðu þingmenn Samfylkingarinnar mjög reiðir þá? Ekki rifjuðu fréttamenn þetta upp.
En vissulega eiga íslensku ráðherrarnir að hætta við Rússlandsferðina. En það eiga þeir að gera af ástæðum sem enginn þingmaður virðist hafa nefnt í dag og fréttamenn ekki heldur.
Ríkið þarf að spara. Það er engin ástæða til að íslenskir ráðherrar fari til útlanda þótt íslenskir íþróttamenn taki þátt í alþjóðlegri keppni, hvort sem það eru vetrarólympíuleikar eða annað. Það er algerlega fráleitt að ráðherra Sjálfstæðisflokksins fari á kostnað ríkisins á vetrarólympíuleikana. Ráðherrann hefur þar ekkert hlutverk og það á ekki að leggja þennan kostnað á skattgreiðendur.
Hvers vegna ættu tveir ráðherrar að fara á þessa leika? Til að standa í brekkunni og hvetja „okkar menn“ til að skíða nú hraðar, og ná Finnanum?
Það segir talsverða sögu um íslenska þjóðmálaumræðu að enginn þingmaður virðist gera athugasemdir við kostnaðinn af svona ferðalögum. Það minnir á nauðsyn þess að talsmenn lágra skatta og sparnaðar í opinberum rekstri láti í sér heyra á opinberum vettvangi. Það hefur Vefþjóðviljinn reynt að gera undanfarin ár, en í dag eru sautján ár frá því útgáfa hans hófst. Í tilefni af því vill blaðið þakka lesendum sínum langa samfylgd og þá ekki síst þeim sem undanfarin ár hafa styrkt félagið með fjárframlögum, ýmist reglulegum greiðslum eða óreglulegum. Þessi framlög, sem ólíkt farmiðunum til Rússlands eru greidd af fúsum og frjálsum vilja, eru ómetanleg.