Vefþjóðviljinn 14. tbl. 18. árg.
Það er ekki oft sem formaður þingnefndar játar beinlínis á sig vanrækslu. Það gerði þó Frosti Sigurjónsson formaður efnahags- og viðskiptanefndar í viðtali á Stöð 2 í fyrrakvöld. Hann var spurður um hin óvæntu 50 milljarða skattleysismörk á sérstökum skatti á fjármálafyrirtæki sem nefndin hans gerði tillögu um á síðustu dögum fyrir jól.
Skattleysismörkin henta einum viðskiptabanka af fjórum afskaplega vel og eru eitt grófasta dæmið um mismunun í skattamálum á síðari árum.
Um fjárhæð skattleysismarkanna sagði formaður efnahags- og viðskiptanefndar:
Ég veit ekkert um hvernig talan er fundin út, þessir 50 milljarðar, þetta kemur semsagt frá ráðuneytinu.
Veit formaður þingnefndar ekki hvaða rök liggja að baki skattalöggjöfinni sem nefndin hans gerir tillögu um? Tekur hann bara við tillögu um mörg hundruð milljóna króna skattahagsmuni án þess að hafa grænan grun um hvað sé þar á ferð?
En kannski er það skárri kosturinn að viðurkenna óvönduð vinnubrögð en að sitja uppi með heitu kartöfluna.