Mánudagur 13. janúar 2014

Vefþjóðviljinn 13. tbl. 18. árg.

Þingmeirihluti sem vill ekki að Ísland gangi í Evrópusambandið þarf ekki að skammast sín fyrir að afturkalla inngöngubeiðni, sem knúin var í gegn með ofstæki og hótunum og auðvitað án þjóðaratkvæðagreiðslu, á valdatíma ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.
Þingmeirihluti sem vill ekki að Ísland gangi í Evrópusambandið þarf ekki að skammast sín fyrir að afturkalla inngöngubeiðni, sem knúin var í gegn með ofstæki og hótunum og auðvitað án þjóðaratkvæðagreiðslu, á valdatíma ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.

Hversu langan tíma þurfa stjórnarþingmenn til að ná áttum í Evrópusambandsmálum? Aðildarsinnar halda auðvitað áfram að þyrla upp ryki, svo lengi sem þeir telja sig hafa von um að stjórnarmeirihlutinn sjái ekki út um rykið. Þess vegna heldur áfram villandi söngurinn um „þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna“ áfram. Álitsgjafar og fjölmiðlamenn halda þessu auðvitað gangandi, í þeirri von að rykið setjist ekki.

Málið er þó sáraeinfalt. Það hafa aldrei verið neinar samningaviðræður um aðild að Evrópusambandinu. „Umsókn um aðild“ að ESB er bein yfirlýsing um vilja til að ganga í sambandið. Það er viðurkennt um alla Evrópu, alls staðar nema í íslenskum fréttatímum. Umsókn um inngöngu er ekki yfirlýsing um vilja til að kanna „hvað er í boði“. Þess vegna er augljóst að inngöngubeiðni getur því aðeins staðið að meirihluti þingmanna á hverjum tíma styðji hana. Ef meirihluti þingmanna styður hana ekki, hlýtur að eiga að afturkalla hana.

Samfylkingarmenn náðu einfaldlega með frekju og ofstæki að fá meirihluta síðasta þings til að láta Ísland sækja um aðild að ESB. Þessi sami meirihluti neitaði því að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um þann gjörning. Sömu menn láta núna eins og nýr þingmeirihluti megi ekki afturkalla sömu inngöngubeiðni, án þess að halda þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í kvöld sat utanríkisráðherra fyrir svörum í sjónvarpi. Þar var hann spurður hvort það væri ekki tvískinnungur af framsóknarmönnum að hafa lagt til árið 2012 að kosið yrði um málið, en vilja það ekki nú. Í því er þó enginn tvískinnungur. Árið 2012 var við völd ríkisstjórn sem hafði látið Ísland sækja um aðild að Evrópusambandinu, þrátt fyrir yfirgnæfandi andstöðu í landinu við slíka inngöngu. Þá gátu verið rök fyrir því að efna til slíkrar kosningar.

Nú er sú staða ekki lengur uppi. Nú er ríkisstjórn og yfirgnæfandi meirihluti þingmanna á móti því að ganga í Evrópusambandið. Við þær aðstæður er fráleitt að inngöngubeiðnin standi og Ísland sé formlega umsóknarríki í Evrópusambandið.

Það er algerlega fráleitt að tala um „þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna“ þegar ljóst er að meirihluti þingsins vill ekki ganga í Evrópusambandið. „Viðræðurnar“ snúast eingöngu um það hvernig Íslandi gangi að breyta þeim íslensku lögum sem Evrópusambandið vill að Ísland breyti. Það eru einu „viðræðurnar“ sem sumir telja fólki trú um að ástæða sé til þess að „ljúka“.

Stjórnvöld verða að fara að ljúka þessum vandræðagangi og afturkalla inngöngubeiðnina. Þá mun þessari fráleitu umræðu ljúka og eftir skamma stund mun enginn skilja hvernig hægt var að halda henni á lífi vikum saman. Þingmeirihluti sem vill ekki að Ísland gangi í Evrópusambandið þarf ekki að skammast sín fyrir að afturkalla inngöngubeiðni, sem knúin var í gegn með ofstæki og hótunum og auðvitað án þjóðaratkvæðagreiðslu, á valdatíma ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.