Helgarsprokið 12. janúar 2014

Vefþjóðviljinn 12. tbl. 18. árg.

Nýlega var skrifað undir kjarasamninga um mjög hóflegar launahækkanir, svo ekki sé meira sagt. Var það gert vegna þess að menn óttast að meiri hækkanir leiði einfaldlega til hækkaðs vöruverðs og þar með hefjist gamalkunnur verðbólgudans, sem var mikil plága á Íslandi allt þar til fyrir rúmum tuttugu árum eða svo.

Í tengslum við þetta er nú mikil andstaða við hvers kyns verðhækkun. Jafnvel þótt aðföng fyrirtækja hafi hækkað í verði um tugi prósenta, er þess krafist að þau hækki ekki vöruverð sitt, því það sé á einhvern óorðaðan hátt hluti af kjarasamningspakkanum.

Stjórnvöld hafa skiljanlega talað fyrir friði á vinnumarkaði, enda væru verkföll mjög skaðleg fyrir framleiðslu í landinu og spilltu mjög fyrir vexti atvinnulífsins. Þess vegna þykir mörgum skjóta skökku við þegar hið opinbera hækkar ýmis gjöld og ætlar einungis að falla frá hluta þeirra hækkana.

Meðal þeirra sem þannig tala er Katrín Jakobsdóttir sem um helgina gagnrýndi stjórnvöld fyrir þetta.

Það er full ástæða til að hvetja stjórnvöld til þess að létta álögum af atvinnulífinu og lækka gjöld. Og þegar menn hafa áhyggjur af álögum sem hafa mikil áhrif á verðlagsþróun, vísitölur og þar með verðtryggðar skuldir og eignir, þá er margt sem stjórnvöld geta gert og ættu að gera.
Það tengist meðal annars máli sem Vefþjóðviljinn hefur lengi barist fyrir. Að menn endurmeti hlutverk hins opinbera.

Hið opinbera á að forðast að skipta sér af því hvernig fólk lifir lífi sínu. Með því er að sjálfsögðu ekki átt við að þeir sem vilja lemja samborgara sína eigi að fá að gera það, heldur það augljósa að hver og einn eigi að vera sem mest sjálfráða um eigið líf, svo lengi sem hann brýtur ekki á öðrum við þetta val sitt.

Í þessu felst að hið opinbera á ekki að beita valdi sínu til þess að hafa áhrif á almenna hegðun fólks, þar á meðal skattlagningarvaldi. Þó þingmönnum og embættismönnum þyki samborgararnir borða of mikinn sykur, þá á ríkið ekki að leggja á sérstakan sykurskatt. Því miður var Katrín Jakobsdóttir ekki spurð að því hvort hún myndi ekki styðja það, til að létta álögum á heimilin í landinu, að sykurskattur yrði aflagður, og ekki heldur hvort hún vissi hvaða ríkisstjórn hefði haft forgöngu um að hann yrði lagður á.

Þingmönnum og embættismönnum finnst kannski að fólk fái sér of oft í glas. En ríkið á samt ekki að leggja á áfengisgjald. Þingmenn eru margir hverjir ofsækisfullir andstæðingar reykinga. En ríkið á samt ekki að leggja sérstakt gjald á vindla og neftóbak.

Menn verða að fara að greina á milli þess sem þeir eru á móti, og svo þess sem þeir mega ráðast gegn með opinberu valdi.

En hvað með það þegar neysla eða hegðun veldur tjóni sem lendir svo á hinu opinbera? Maður sem reykir sér til óbóta þarf sjúkrahúsvist með miklum kostnaði, er eitthvað ósanngjarnt við að hann sé þá í raun búinn að greiða hann fyrirfram með tóbaksgjaldi? Drukknir menn valda oft skemmdum eða slasa fólk. Er ekki sanngjarnt að þeir hafi borgað áfengisgjald öll sín drykkjuár?

Þannig er oft spurt. Hvað vilja menn ganga langt í slíkri röksemdafærslu? Einn gallinn við hana er að hún opnar á næstum óendanlega möguleika fyrir stjórnlynda embættismenn og þingmenn. Fyrst láta þeir ríkið taka að sér eitthvert verkefni, að bæta úr einhverju ástandi. Svo nota þeir þá ákvörðun til að réttlæta ekki aðeins gjaldtöku heldur einnig alls kyns boð og bönn. Þegar slík röksemdafærsla hefur á annað borð verið samþykkt, þá geta menn haldið áfram endalaust.

Maður sem fær lungnabólgu leggst inn á spítala eða fær lyf, og ríkið hefur af því kostnað. Má ríkið þá ekki leiða í lög að mönnum sé skylt að vera með húfu og trefil í frosti? Menn geta komið sér upp hjartasjúkdómum, rándýrum fyrir ríkið, með röngu mataræði. Er þá eitthvað ósanngjarnt við að ríkið takmarki hversu mikinn rjóma þeir mega nota í kaffið? Er eitthvað sem mælir á móti rjómaskatti?

Hvað halda menn að langur tími líði þar til menn samþykkja að ákveðinn verði sérstakur ríkismatseðill, auðvitað valinn af fagmönnum með hliðsjón af lýðræði og jafnrétti kynjanna, og fólki verði sagt að borða hann? Því annars hafi ríkið af því tóman kostnað. Rétt eins og reykingamönnunum.

Reykingamönnunum, mun þá einhver spyrja, hverjir voru það? Auðvitað kemur að því að enginn fær að njóta tóbaks, því einhverjum fannst svo leiðinlegt að finna tóbakslykt af jakknum sínum eftir settlegt kvöld á kránni, og enginn varði rétt kráareigenda til að setja reglur á eigin krá.