Vefþjóðviljinn 11. tbl. 18. árg.
Eins og Vefþjóðviljinn veik að í gær fór Alþingi á síðustu dögum þinghalds fyrir jól að tillögu efnahags- og viðskiptanefndar um að setja 50 milljarða skattleysismörk á sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki um leið og skatthlutfallið var nífaldað.
Þessi sérstaki skattur á fjármálafyrirtæki var hækkaður úr 0,041% í 0,376% af skuldum þeirra. Skuldir viðskiptabankanna fjögurra eru á bilinu 57 til 870 milljarðar. Skattinum er ætlað að standa undir fjármögnun á skuldaniðurgreiðslutillögum Sigurðar Hannessonar en Sigurður er framkvæmdastjóri hjá hinum heppna MP banka þar sem skuldir (skattstofninn) eru svipaðar og skattleysismörkin.
Ef MP banki þyrfti að greiða 0,376% af skuldum sínum án 50 milljarða skattleysismarkanna væri skatturinn 214 milljónir króna á ári. Hann lækkar hins vegar í 26 milljónir eða um 88% þegar tekið er tillit til skattleysismarkanna.
Þessi grófa misnoktun á skattlagningarvaldi gerir það að verkum að hinir bankarnir greiða nær áttfalt hærra hlutfall af sínum skuldum í þennan bankaskatt en MP banki.