Vefþjóðviljinn 9. tbl. 18. árg.
Seint á síðasta ári sagði kennari í Reykjavík frá því að hann hefði sagt upp starfi, eftir að hafa orðið fyrir miklum óþægindum vegna framgöngu skólayfirvalda borgarinnar. Borgin byði upp á það að hver sem er gæti komið nafnlausum ábendingum á framfæri um einstaka starfsmenn og einhver hefði nýtt sér það og sakað kennarann um óviðeigandi háttsemi við barn. Eitthvert barn, einhvern tímann. Borgarkerfið hefði farið á stað, en kennarinn verið sendur í leyfi á meðan þessar óljósu ásakanir voru athugaðar, meðal annars með því að spyrjast fyrir um manninn alls staðar þar sem hann hefði áður starfað.
Lýsingar kennarans á vinnubrögðum borgarinnar voru þannig að stundum mátti halda að einhver hefði lesið yfir sig af Kafka. En hafi borgaryfirvöld mótmælt frásögnum kennarans, þá hefur það farið fram hjá Vefþjóðviljanum. Sömuleiðis hefur ekkert heyrst um að borgaryfirvöld, borgarstjóri eða aðrir ráðamenn borgarinnar, hafi lýst yfir að óeðlilega hafi verið staðið að málum. Virðist því sem lýsingar kennarans séu í aðalatriðum réttar og að æðstu stjórnendur borgarinnar láti sér málið í léttu rúmi liggja.
Um svipað leyti heyrðist af því að óformlegt félag þeirra sem skulda tilteknu fyrirtæki peninga, hafi kært félagið fyrir ólögmæta starfsemi. Forsvarsmaður kærendanna fór í viðtal í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis, og heyrði Vefþjóðviljinn þá ekki betur en forsvarsmaðurinn hefði varla hugmynd um hver lögbrotin ættu að vera, en skuldaranir væru hins vegar mjög reiðir.
Auðvitað er ólíku saman að jafna, einstaklingi sem sakaður er um brot gegn barni án þess að fá að vita neitt um hvert brotið á að hafa verið, og fyrirtæki sem hefur ráð á öflugum lögmönnum og má búast við reiðum viðskiptavinum. En bæði málin leiða hugann að því hversu auðvelt er að valda öðru fólki vandræðum.
Hið opinbera er sífellt að fjölga þeim leiðum sem menn hafa til þess að valda öðrum óþægindum, kostnaði og fyrirhöfn. Víða um heim nýta fyrirtæki sér slíkt óspart til þess að koma höggi á keppinauta, valda þeim kostnaði, skemma orðspor þeirra og svo framvegis. Þar hafa kærur til samkeppnisyfirvalda verið vinsæl leið, en margar aðrar eru færar. Jafnvel þótt ekkert sé til í kærunni, þurfa keppinautarnir að eyða dýrmætum peningum og tíma í að svara henni. Fréttir af því að kæra sé til meðferðar vekja auk þess neikvætt umtal um keppinautinn en gefa kærandanum yfirbragð hins skelegga samkeppnisaðila.
Eitt af því sem mikilvægt er að gera við endurskoðun hlutverks hins opinbera, er að sporna við því að kærur og kvartanir séu notaðar í slíkum tilgangi. Þeir sem brotið hefur verið á verða vitanlega að hafa leiðir til að leita réttar síns. En því má ekki gleyma að tilhæfulausar ásakanir valda þeim sem fyrir þeim verða oft miklu tjóni.