Miðvikudagur 8. janúar 2014

Vefþjóðviljinn 8. tbl. 18. árg.

Ísland er sama háskattalandið þótt komnir séu nýir menn í stað Steingríms og Indriða.
Ísland er sama háskattalandið þótt komnir séu nýir menn í stað Steingríms og Indriða.

Í landinu er ríkisstjórn sem hugsar um það helst að hækka skattana, flækja skattkerfið, sóa hinum skammtaða gjaldeyri, þenja út ríkisbaknið, gera fólk að bótaþegum og afnema friðhelgi einkalífs.

Umfangsmikilli félagslegri aðstoð við fullfrískt og ríkt fólk var nýlega hleypt af stokkunum og kölluð „skuldaleiðrétting“.

Í kjölfarið kom ein mesta skattahækkun Íslandssögunnar, sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki var snarhækkaður sem mun að sjálfsögðu rýra kjör viðskiptavina bankanna.

Auðmenn fá nú „grunnlífeyri“ frá Tryggingastofnun ríkisins.

Í stað þess að einfalda virðisaukaskattskerfið er hringlað með einstakar atvinnugreinar og tekjuskattskerfi einstaklinga er auðvitað algerlega óbreytt frá Steingrími og Indriða.

Með breytingu á lögum um hagstofu Íslands og fleiri aðgerðum er gerð tilraun til að afnema þá litlu friðhelgi einkalífs sem eftir var í fjármálum einstaklinganna.

Áfram er haldið með miðstýringarhugmyndir vinstri stjórnarinnar um náttúrupassa og olíufélög skikkuð til að kaupa til landsins rándýra jurtaolíu.

Áfram virðist heldur lögð áhersla á ívilnanir og fjárfestingarsamninga stjórnvalda við einstök fyrirtæki en að gera almenn skilyrði til rekstrar góð. 

Færibandið sem „innleiðir“ ströngustu útgáfur af tilskipunum ESB gengur sem aldrei fyrr. Síðast kom upphersla á hinu mikilvæga máli um „visthönnun vöru sem notar orku“ og er óskiljanlegt hvernig þjóðfélagið fúnkeraði áður en það naut þeirrar blessunar.

Og hvernig gengur svo að efna það marggefna loforð beggja stjórnarflokkanna að slíta viðræðum um aðild landsins að ESB?