Miðvikudagur 1. janúar 2014

Vefþjóðviljinn 1. tbl. 18. árg.

Lítið hefur verið fjallað um helstu stærðir ríkisfjármála undanfarin misseri. Ekki er gott að sjá hvert er stefnt með þeim fjárlögum sem samþykkt voru nú fyrir jólin. Eina stærðin sem er nefnd er áætlun um afgang upp um 500 milljónir króna. Allir vita að slíkur „afgangur“ er nánast innan skekkjumarka í rekstri ríkisins og yfirleitt bætast mörg þúsund milljónir við útgjöld ríkisins frá því sem fjárlög mæla fyrir um. 

Það kæmi því verulega á óvart ef ríkið verður rekið með afgangi á árinu 2014.

Sem kunnugt er ákvað stjórnarmeirihlutinn að auka útgjöld ríkissjóðs um tugi milljarða króna til að „leiðrétta“ lán fólks sem margt er í góðum efnum og með háar tekjur. Önnur eins félagslega aðstoð við fullfrískt fólk hefur ekki verið veitt síðan tryggingastofnun ríkisins var látin greiða nýbökuðum foreldrum 80% launa í fæðingarorlofi án nokkurs hámarks.

Vaxtagjöld ríkissjóðs hafa verið um 13% af útgjöldum hans undanfarin ár eða um 75 milljarðar króna. Með nýjum útgjöldum á borð við „skuldaleiðréttinguna“ fresta menn því að taka á þeim vanda sem þessar skuldir allra landsmanna eru. Kynslóðin sem fer nú með völd ætlar einfaldlega að varpa þeim á þær sem eftir koma og jafnvel auka þær til að greiða niður sínar prívatskuldir.