Vefþjóðviljinn 365. tbl. 17. árg.
Á R A M Ó T A Ú T G Á F A
Í tilefni dagsins hefur Vefþjóðviljinn tekið saman nokkur atriði sem óþarft er að hverfi með árinu inn í aldanna skaut.
Vonbrigði ársins: Knattspynulandsliðið komst ekki í úrslitakeppni heimsmeistaramótsins. Því fá menn aldrei að vita hvernig KSÍ hefði staðið að sölu þeirra miða sem það hefði fengið á leikina þar.
Ljósmyndari ársins: Forsætisráðherra Dana náði þremur sjálfsuppteknustu gestunum í útför Mandelas á eina mynd.
Lokaundirbúningur ársins: Forseti Íslands borðaði með fótboltalandsliðinu, áður en það gekk út á völlinn í síðari leikinn við Króata.
Formannsskipti ársins: Steingrímur J. Sigfússon tilkynnti skyndilega að hann myndi láta af formannsembætti Vinstrigrænna. Katrín Jakobsdóttir tilkynnti að hún ætlaði að taka við. Steingrímur sat hins vegar enn í formannssæti á ríkisstjórnarfundum og þegar Jóhanna Sigurðardóttir fór til útlanda í apríl, leysti Steingrímur en ekki Katrín hana af.
Skelfing ársins: Heiða Kristín Helgadóttir, „stjórnarformaður Bjartrar framtíðar“, sagði að það væri „skelfilegt“ að í borgarstjórnarprófkjöri Sjálfstæðisflokksins hefðu karlar orðið í þremur efstu sætunum. Í síðustu kosningum var hún kosningastjóri Besta flokksins, sem bauð fram þrjá karlmenn í þremur efstu sætum, og þeir voru valdir á lokuðum fundi en ekki fimm þúsund manna prófkjöri.
Umræðuróari ársins: Vigdís Hauksdóttir gæti sagt opinberlega að tvisvar tveir væru fjórir, þannig að andstæðingar hennar myndu froðufella svo af hneykslun að samherjar hennar myndu trúa andstæðingunum frekar en henni.
Lágpunktur ársins: Formaður þingflokks Samfylkingarinnar sagði að kosninganóttin hefði verið „lágpunktur ársins“. Eftir fjögur ár voru Samfylkingarmenn farnir að halda að þeim tækist að forðast kjósendur endalaust.
Sameining ársins: Steingrímur J. Sigfússon og Jón Gunnarsson sameinuðust í einn mann, til að sjá til þess að Íslendingar muni að óþörfu eyða hundruðum milljóna af erlendum gjaldeyri í „endurnýjanlegt eldsneyti“.
Landbúnaðarafurð ársins: Írskt smjör.
Kjúklingar ársins: Þeir eru að vísu erlendir, en með íslenskum límmiðum og það er auðvitað fyrir mestu.
Löggjafi ársins: Carbon Recycling International setti lög um endurnýtanlegt eldsneyti. Sjálfstæðisflokkurinn má ekki heyra nefnt að lögunum verði breytt.
Réttlæti ársins: Þeir sem keyptu sér húsnæði um aldamótin hafa almennt stórgrætt á fjárfestingunni. Þeir eiga nú í vændum glaðning frá ríkinu.
Samþykki ársins: Boðaður var útifundur til þess að mótmæla niðurskurði hjá Ríkisútvarpinu. Í fundarboði var lögð rík áhersla á mikla mætingu, því „þögn er sama og samþykki“. Samkvæmt Ríkisútvarpinu sjálfu mættu „um hundrað manns á fundinn“.
Viðbrögð ársins: Þegar ríkisstjórnin kynnti tillögur sínar í málum skuldara hafði stjórnarandstaðan það gegn þeim að fjármögnunin væri hæpin, peningarnir kynnu að nýtast betur annars staðar og að tillögurnar kostuðu ekki nógu mikið. Síðan hefur það bæst við að Össur Skarphéðinsson fullyrðir nú að Össur Skarphéðinsson hafi einmitt lagt sömu hluti til, í síðustu ríkisstjórn.
Gagnrýni ársins: Þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ræddi viðskilnað síðustu ríkisstjórnar sagði Katrín Jakobsdóttir að hann væri „enn í stjórnarandstöðu í stað þess að tala til framtíðar.“ Í eigin valdatíð stóð Katrín hins vegar fyrir því að landsdómur var kallaður saman.
Síldartunna ársins: Kolgrafafjörður. Hvernig væri nú að fara að moka upp þessari þverun?
Njósnarar ársins: Útsendarar Reykjavíkurborgar kanna hvort of mikill pappír hefur verið settur í öskutunnur borgarbúa. Hafi sá glæpur verið framinn, er tunnan ekki tæmd.
Skilningur ársins: Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hafnaði tillögu um að gert yrði hlé á aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Fundurinn ákvað þess í stað að viðræðunum yrði slitið. Örfáir meinlokumenn halda enn að þeir geti talið fólki trú um hið gagnstæða.
Þingræða ársins: Elín Hirst hélt þingræðu um gallabuxur.
Verðskuldun ársins: Þeir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sem vildu leiða hann til enn frekari afreka í borgarstjórn, töpuðu allir í prófkjöri fyrir varabæjarfulltrúa á Ísafirði.
Þingumræða ársins: Elín Hirst efndi til þingumræðu um sykurmagn í tiltekinni jógúrttegund. Fjöldi þingmanna tók þátt af lífi og sál.
Ræðumenn ársins: Á jafnréttisþingi voru sjö ræðumenn auglýstir. Sex voru konur. Sjöundi var norskur.
Styrkveiting ársins: Ungur og efnilegur kynjafræðingur fékk 2.250.000 króna styrk úr „jafnréttissjóði“ til að vinna rannsókn með það að markmiði „að skoða hvernig íslenskar konur upplifa og aðlaga sig að móðurhlutverkinu, auk þess að skoða ráðandi orðræður um móðurhlutverkið sem menningarlega og sögulega ákvarðað atferli. Rannsóknin skoðar með hvaða hætti orðræða hins „náttúrulega“ birtist á Íslandi þegar kemur að barneignum og umönnum barna og skoða hvernig merkimiðarnir um hina „góðu“ og „slæmu“ móður eru notaðir til þess að stjórna valkostum og hegðun kvenna. Byggt er bæði á eigindlegum og megindlegum rannsóknaraðferðum.“ Þessum skattpeningum hefði ekki mátt verja betur.
Ráðstefna ársins: Þrettán hundruð manns, fulltrúar „allra skólastiga“, sátu ráðstefnu um „menntavísindi“. Þeim tíma og peningum hefði ekki getað verið varið betur.
Farþegi ársins: Norskir kratar sýndu myndband af því þegar Jens Stoltenberg forsætisráðherra þeirra tók upp á því að aka leigubíl í dulargervi, til þess að komast í beint samband við hinn venjulega Norðmann. Í ljós kom að hinir venjulegu farþegar fengu greitt fyrir, hjá Verkamannaflokknum.
Athyglisgáfa ársins: Margir urðu hrifnir af því hvað Katrín Jakobsdóttir fylgdist vel með, þegar hún benti á það að ef farið væri á heimasíðuna misskilningur.is, kæmi upp mynd af núverandi ríkisstjórn. Í ljós kom að síðan var á vegum ungliðahreyfingar vinstrigrænna.
Fréttaútsending ársins: Ríkisútvarpið sendi beint út frá því er mótmælendur gengu fylktu liði frá velferðarráðuneytinu að þinghúsinu. Að sögn fréttamanns voru viðstaddir „um fimm manns“. Að þeirri talningu lokinni var forsvarsmanni hópsins réttur hljóðneminn með spurningunni: „Hverju viljið þið koma á framfæri?“
Skráargatagónarar ársins: Reykjavíkurborg setti á netið teikningar af húsum allra borgarbúa. Dettur einhverjum í hug að slíkt geti verið einkamál íbúanna? Landssamtök innbrotsþjófa fögnðu framtakinu og sögðu þetta mikinn tímasparnað fyrir félagsmenn sína.
Moskva ársins: Að tillögu Jóns Gnarrs sleit Reykjavíkurborg öllu samstarfi við borgarstjórnina í Moskvu, til að mótmæla stefnu ríkisstjórnar Rússlands í málum samkynhneigðra.
Moska ársins: Að tillögu Jóns Gnarrs ákvað Reykjavíkurborg að leggja lóð til þess að reist yrði moska í Reykjavík. Fram hefur komið að hún verður meðal annars reist fyrir fé frá Saudi-Arabíu.
Embættismaður ársins: Borgarfulltrúar meirihlutans reyndu að láta eins og einhver embættismaður, en ekki þeir sjálfir, hefði ákveðið fíaskóið á Hofsvallagötunni í Reykjavík, þar sem þrengingum, reiðhjólastígum, fuglahúsum og málningu í ótal litum var dreift um götuna.
Hlutföll ársins: Þeir sem skulduðu verðtryggt húsnæðislán og þeir sem vildu að ríkissjóður lækkaði skuldir þeirra sem skulda verðtryggt húsnæðislán, reyndust vera sama hlutfall svarenda í könnun.
Umhverfisvernd ársins: Umhverfisráðuneytið fyrirskipaði að sorpbrennslu skyldi hætt á Kirkjubæjarklaustri. Í staðinn þurfti að aka sorpinu til Reykjavíkur og urða það þar.
Starfsleyfissviptari ársins: Frosti Sigurjónsson tilkynnti að starfsleyfi Dróma yrði ekki endurnýjað.
Auglýsingaherferð ársins: Vodafone efndi til mikillar herferðar um að fyrirtækið byði greið og góð samskipti. Tyrkneskur hakkari tók þá á orðinu.
Gæðakokkar ársins: Gæðakokkar ehf. í Borgarnesi framleiða úrvals nautabökur, ætlaðar grænmetisætum.
Björn ársins: Björn Bjarnason, Bjössi.
Ísbrjótur ársins: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson mætti í ósamstæðum skóm á fund Bandaríkjaforseta og forsætisráðherra Norðurlanda. Og tryggði fundarmönnum þar með umræðuefni sem þeir höfðu raunverulegan áhuga á.
Afsönnun ársins: Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ákvað að afsanna þá skoðun að hún væri fáliðuð og glímdi við alvarlegan fjárskort. Hún efndi því til gríðarlegra leyniaðgerða, þar sem fjöldi dulbúinna lögreglumanna eyddi stórfé á erótískum skemmtistöðum til að rannsaka starfsemi þeirra.
Vísindagrein ársins: Háskóli Íslands heldur úti kennslu í kynjafræði í sama tilgangi.
Kreddur ársins: Nýtt aðalskipulag Reykjavíkurborgar.
Dirfska ársins: Jón Gnarr ákvað að leggja verk sín ekki í dóm kjósenda. Það þykir aðdáendum hans aðdáunarvert, eins og annað.
Þröngsjá ársins: Víðsjá.
Krafa ársins: Vinstrimenn telja augljóst að rétt sé að velja einhvern kunnan vinstrimann sem útvarpsstjóra.
Ítrekun ársins: Vilborg Arna Gissurardóttir fór aftur á Suðurpólinn. Bara til að ögra Ingþóri.
Herferð ársins: Starfsmenn Ríkisútvarpsins tóku eitt kastið, þegar efnt var til trúarhátíðar í Laugardalshöll. Allt þar til hátíðin var haldin og fullt var út úr dyrum. Frá því var ekki sagt.
Málarar ársins: Borgaryfirvöld ræstu út mannskap á laugardegi til að mála gangbraut við Laugardalshöll í baráttulitum, fyrir hátíðina.
Klukka ársins: Engin ástæða til að gefa sig með Einar.
Ráðherraval ársins: Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur lært af mistökum síðasta kjörtímabils, og valdi engan ráðherra úr hópi þeirra sem börðust gegn Icesave-lögum vinstristjórnarinnar. Enginn núverandi ráðherra flokksins tók opinbera afstöðu gegn Icesave, þegar þess var þörf.
Skattaafsláttur ársins: Nýr þingmeirihluti ákvað að létta virðisaukaskatti af ferðamönnum sem gista á íslenskum hótelum. Íslendingur sem kaupir sér rúm, getur borgað fullan skatt.
Frændur ársins: Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fann sér andstæðing við hæfi og lagði til að ESB beitti Færeyinga viðskiptaþvingunum. Danska ríkisstjórnin sagði, að ef það yrði gert þá myndi hún standa með Brussel en ekki Færeyjum.
Taugastyrkur ársins: Formaður Heimdallar framdi þann glæp að láta eins og fólk gæti af og til fengið sér humar. „Virkir í athugasemdum“ fengu óvænt flog.
Frasaleysi ársins: Í ársbyrjun stofnuðu stjórnvöld „samráðsvettvang um aukna hagsæld“ og skyldi þar „skapa þverpólitískan umræðuvettvang fyrir framsýna og málefnadrifna umræðu um viðfangsefnið“.
Evrópumet ársins: Aldrei hafa stjórnvöld goldið jafnmikið afhroð í einum kosningum eins og íslenska vinstristjórnin gerði vorið 2013.
Taparar ársins: Útvarpsstöðvarnar riðu ekki feitum hesti frá kosningunum. Útvarp Saga náði engum manni inn, og framboð Ríkisútvarpsins töpuðu miklu fylgi.
Skilaboð ársins: 2,47% kjósenda sendu skýr skilaboð í „stjórnarskrármálinu“ og kusu Lýðræðisvaktina.
Þingmannafjöldi ársins: Í þingkosningunum 2013 náðu Samfylkingin og Vinstrigrænir samanlagt aðeins þingmannafjölda Sjálfstæðisflokksins árið 2009, sem voru þó langverstu úrslit í sögu Sjálfstæðisflokksins.
Reynsla ársins: Fyrir kosningarnar reyndu ekki einu sinni allra mestu lýðskrumsflokkarnir að leggja til að fengnir yrðu „ópólitískir ráðherrar“. Svona geta menn lært af reynslunni.
Kosningaauglýsingar ársins: Birgitta Jónsdóttir fór til Bandaríkjanna og sendi frá sér stöðug skilaboð um að hún hefði ekki enn verið handtekin. Fjölmiðlar endurbirtu þetta allt í venjulegu hugsunarleysi, og fylgi Pírata fór loks að rísa.
Lokatölur ársins: Píratar náðu með naumindum 5% markinu í þingkosningunum. Engum datt í hug að biðja um endurtalningu.
Hagstjórn ársins: Vinstristjórnin lét ekki allt sitja á hakanum. Hún innleiddi til dæmis „kynjaða hagstjórn“. Er ekki örugglega búið að afnema hana?
Tilboð ársins: Guðmundur Steingrímsson sagði í kosningabaráttunni að nú væru í fyrsta skipti í boði tveir flokkar sem vildu reyna við aðild að Evrópusambandinu.
Svar ársins: Þessir tveir flokkar fengu samtals tuttugu prósent fylgi. Allir, nema örfáir frekir sjálfstæðiskratar sem Fréttablaðið talar reglulega við, skilja niðurstöðuna.
Könnun ársins: Nokkrum dögum fyrir þingkosningar fór Jóhanna Sigurðardóttir í opinbera heimsókn til kommúnistastjórnarinnar í Kína og kannaði heiðursvörð kínverska hersins á Torgi hins himneska friðar. Henni mun ekki hafa orðið meint af. Svo skrifaði hún undir fríverslunarsamning við kommúnistastjórnina, enda um að gera að eiga sem mest viðskipti við þær. Ráðherra Sjálfstæðisflokksins langar mikið til að breyta reglum svo Huang Nupo komi aftur.
Reisn ársins: Margrét Thatcher, einn merkasti stjórnmálaleiðtogi síðustu aldar, féll frá. Íslenska Ríkisútvarpið brást við með því að fá tilbúna persónu, „Frímann Gunnarsson“, í útsendingu sem dæmi um íslenskan aðdáanda hennar, þeim og henni til háðungar. Ekki er vitað um neinn „hollvin Ríkisútvarpsins“ sem fannst þetta óviðeigandi.
Traust ársins: Í byrjun mars sagðist Guðmundur Steingrímsson í sjónvarpsviðtali ætla að sitja hjá um vantrausttillögu á ríkisstjórnina. Viku síðar virtist það ekki nægja, svo hann studdi vinstristjórnina. Úr þingsætinu sem hann fékk með atkvæðum framsóknarmanna fyrir vestan.
Kraftaverkamaður ársins: Þegar niðurstaða Icesave-dómsins lá fyrir, lagði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra áherslu á að lögfræðingur Íslands hefði unnið kraftaverk. Nei, það var auðvitað ekki málstaðurinn sem var góður.
Uppfinning ársins: Steingrímur J. Sigfússon sagði í setningarræðu landsfundar Vinstrigrænna að „nýfrjálshyggjan“ væri „versta hugmyndafræði sem fundin hefur verið upp á jörðinni.“ Þetta hefur Birni Vali þótt skynsamlega mælt.
Svindl ársins: Mikilvæg ríkisstofnun, Neytendastofa, sendi frá sér áríðandi tilkynningu um að niðurstöður rannsóknar hennar sýndu að á tuttugu veitingahúsum væru sjússamælarnir hreinlega ekki með löggildingartákn og faggildingarnúmer. Vísir sló þessu upp, undir fyrirsögninni „Það er svindlað á þér“.
Einelti ársins: Jón Gnarr Kristinsson sagði að þeir sem kölluðu hann Jón Gnarr Kristinsson legðu föður hans í einelti.
Tvíelti ársins: Borgarstjóri hélt fund með íbúum Grafarvogs. Einn fundarmanna var ókurteis við hann. Borgarstjórinn sagðist hafa orðið fyrir „einelti og ofbeldi“ á fundinum.
Græningi ársins: Steingrímur J. Sigfússon formaður vinstrigrænna gaf út leyfi til vinnslu oliu og gass á Drekasvæðinu.
Nauðsyn ársins: Hvers vegna var ekki hægt að hætta þessari óþörfu vegarlagningu við Gálgahraun?
Varnaðarorðamaður ársins: Már Guðmundsson var óþreytandi í því að vara við of miklum launahækkunum. Þær væru stórhættulegar fyrir stöðugleikann.
Réttindabarátta ársins: Einn Íslendingur stóð í málaferlum til að fá laun sín hækkuð. Már Guðmundsson krafðist þess að laun Más Guðmundssonar yrðu hækkuð um 400.000 krónur á mánuði. Stöðugleikinn vann málið.
Fundarboð ársins: Þegar von var á dómi EFTA-dómstólsins í Icesave-málinu boðaði Samfylkingin í Reykjavík til opins fundar um „afleiðingar“ dómsins. Ræðumaður skyldi verða Vilhjálmur Þorsteinsson „frumkvöðull“ og fundurinn skyldi haldinn 30. janúar, tveimur dögum eftir dóminn.
Afboð ársins: Þann 29. janúar, daginn eftir dóminn, sendi Samfylkingin frá sér tilkynningu um að fundinum væri „frestað vegna þess að húsnæðið að Hallveigarstíg er þétt setið þessa dagana vegna landsfundarverkefna og undirbúnings honum tengdum.“
Fjölmiðill ársins óskar lesendum sínum velgengni og góðvildar á komandi ári.