Vefþjóðviljinn 364. tbl. 17. árg.
Í Kastljósi Ríkissjónvarpsins 19. desember var fjallað um afleiðingar hinna nýju laga um endurnýjanlegt eldsneyti sem samþykkt voru í mars og koma til framkvæmda nú um áramótin.
Þar kom fram að ekkert innlendu olíufélaganna hefði í hyggju að blanda metanóli í bensín á næsta ári. Jón Gunnarsson formaður atvinnuveganefndar Alþingis sagði í viðtali við Morgunblaðið 21. nóvember að með lagasetningunni hefði verið „fyrst of fremst horft til framleiðslu fyrirtækisins Carbon Recycling International í Svartsengi á metanóli.“
Með lögunum átti með öðrum orðum að beina bíleigendum í landinu í áskrift að metanóli frá CRI, enda lögin samin af því fyrirtæki. En það virðist ekki hafa gengið eftir.
Kastljós spurði Jón því hvort til greina kæmi að knýja olíufélögin til að kaupa íblöndunarefni af innlendum framleiðendum eins og CRI. Jón svaraði að bragði:
Það er vissuleg hægt og það er alveg hægt að hugsa sér það á seinni stigum. Ég meina, ríkið beitir tollum í margvíslegum innflutningi og við gerum það gagnvart efnum og innflutningi frá löndum þar sem við erum ekki með semsagt fríverslunarsamninga við. Við erum vissulega með það við Evrópusambandið en það er bara hluti af þessum íblöndunarefnum framleiddur þar, hann er fluttur annars staðar frá.
Þingmaður boðar hér blygðunarlaust nýja tollmúra og viðskiptahindranir. Og ekki er hægt að skilja hann öðruvísi en svo að því miður séu Íslendingar með fríverslunarsamninga við ýmis lönd og geti því ekki beitt tollvernd og öðrum sósíalisma að vild.
Þingmaður Sjálfstæðisflokksins!