Vefþjóðviljinn 357. tbl. 17. árg.
Menn má langa mikið til að ala á ólund vegna nýgerðra kjarasamninga, þegar þeir búa til fréttir um og slá því upp í inngangi að fólk með hærri tekjur fái meira út úr samningunum en þeir með lægri tekjurnar.
Sjónvarpsáhorfendur fengu slíkan fróðleik í stórum skammti í gærkvöldi.
En þegar nánari útskýring á fullyrðingunum kom, þá var hún einfaldlega sú að menn með hærri tekjur hækkuðu um fleiri krónur en hinir, af því að samið var um hefðbundna prósentu-hækkun launa.
Er það ekki venjulegt form kjarasamninga á Íslandi? Er ekki yfirleitt samið um prósentuhækkun, en rifist um það hver hún skuli verða? Vinnuveitendur bjóða tvö prósent, verkalýðsforystan vill fjögur og svo er samið um svona þrjú, ásamt einhverjum atriðum eins og þeim lægst launuðu er tryggð lágmarkshækkun óháð prósentum, borgað er í einhverja endurmenntunarsjóði og svo framvegis.
Hefur þetta ekki yfirleitt verið svona?
En hvers vegna láta menn þá eins og það séu stórtíðindi, mikil vonbrigði og alvarleg svik, að þeir sem voru með fjögurhundruð þúsund fái fleiri krónur í hækkun en þeir sem voru með þrjú hundruð þúsund, þegar laun beggja hækka um 2,8?
Hvernig getur niðurstaða þess útreiknings komið á óvart?
Svo blasir við að barátta við alvarlega verðbólgu er jafnvel enn mikilvægari fyrir þá launalægstu en aðra. Þeir sem hafa rýmri tekjur ráða frekar við hækkanir, og geta einnig skorið niður ýmis kaup. Þeir sem aðeins kaupa brýnustu nauðþurftir geta fátt skorið niður þegar allt hækkar.